Útfærslur skuldaniðurfellingatillagna voru kynntar á miðvikudag. Þær staðfesta á allan hátt hversu veikar, illa undirbyggðar, lítt úthugsaðar og beinleiðis skaðlegar þessar peningagjafir eru. Allir sem hafa metið áhrif þeirra, utan þess aðila sem ríkisstjórnin réð sérstaklega í verkið, eru sammála um að aðgerðirnar muni valda verðbólgu. Þær verða piss í skó því verðbólga mun éta upp ávinninginn af báðum öngum hennar á örfáum árum.
Þær munu líka valda ruðningsáhrifum á fasteignaverð og gera þeim sem eiga í erfiðleikum að koma þaki yfir höfuðið enn erfiðara fyrir að gera slíkt. Þetta á til að mynda við um öryrkja, lágt launaða og eignarlausa. Þá lægst settu í samfélaginu sem fá engar peningagjafir og eru með lágan eða engan séreignasparnað. En skítt með þá. Þeir kusu örugglega ekkert Framsókn.
Reynt að hífa upp fylgi í Reykjavík
Tímasetning upphafs peningagjafanna, tveimur vikum fyrir næstu sveitastjórnarkosningar, hefur ugglaust allt með það að gera að Framsóknarflokkurinn mælist nú með tveggja prósenta fylgi í höfuðborginni, þar sem þorri skuldaniðurfellingaregnsins lendir, og að Sjálfstæðisflokkurinn er pikkfastur í minnsta hlutfallslega fylgi sem hann hefur nokkru sinni mælst með.
En það versta við þetta allt saman er blekkingarleikurinn sem ráðamenn hafa hlaðið í til að fela þá staðreynd, að það sem þeir kalla „Leiðréttinguna“ er ekkert annað en enn eitt svikið kosningaloforðið. Allir tapa á endanum. Líka þeir sem fá gefins peninga.
Loforð um peninga skilaði völdum
Það eru fá orð sem hafa heyrst jafn oft á undanförnum fimm árum og orðið forsendubrestur. Ef þú gúgglar orðið færðu 68 þúsund svaranir. Með forsendubresti er átt við að verðbólga hafi verið hærri en fólk vonaðist til að hún yrði, þegar það tók húsnæðislán, þrátt fyrir að hjónaband íslenskrar krónu og vondrar efnahagsstjórnar hafi alltaf valdið hærri verðbólgu en í nokkru öðru ríki í kringum okkur.
Síðan að hinn ætlaði forsendubrestur átti sér stað hefur húsnæðisverð hækkað umtalsvert. Búið er að keyra hálfa þjóðina í gegnum 110 prósent-leið, sérstakar vaxtabætur, gengislánaniðurfellingar, sértæka skuldaaðlögun og/eða greiðsluaðlögum fyrir á þriðja hundrað milljarða króna. Samt var til hópur sem stal nafninu „heimilin í landinu“ af hinum heimilunum í landinu og taldi sig enn það illa hlunnfarinn að hann var brjálaður yfir því að fá ekki meira af forsendubrestinum „leiðréttan“.
Framsóknarflokkurinn gerði rödd þessa hóps að sinni og rak ótrúlega vel heppnaða kosningabaráttu á þeim grunni. Hún snérist um að lofa tilfærslu á 240-300 milljörðum króna af peningum vondra vogunarsjóða til fólksins með heimilishattana. Þessar tölur eru ekki spuni stjórnarandstæðinga eða afleiðing af heimsku eða óbilgirni fréttamanna, líkt og verið er að reyna að sannfæra fólk um núna. Þetta eru tölurnar sem fólk hélt að það væri að fara að fá eftir að hafa horft eða lesið viðtöl við forvígismenn Framsóknarflokksins í aðdraganda kosninga.
Kjósendur kokgleyptu þetta, enda töldu margir að um væri að ræða fordæmalaust gylliboð um eingreiðslu á fullt af peningum. Þeir skiluðu Framsóknarflokknum í forsætisráðuneytið þar sem hann drottnar yfir vængbrotnum, ráðvilltum og persónuleikalausum samstarfsflokki.
Í stjórnarsáttmála flokkanna var loforðið svo útfært og sagt að þeir ætluðu „að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007-2010[...]um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði“.
Svona kaupir þú kosningar
Í nóvember var tilkynnt að peningjagjöfin yrði einungis 80 milljarðar króna og að hún yrði greidd úr ríkissjóði. Til viðbótar myndi fólk fá að nota sparnaðinn sinn skattfrjálst til að borga niður húsnæðislán. Í fyrradag var útfærslan svo kynnt. Og þegar frumvörpin sem liggja til grundvallar henni eru lesin kemur fram að ekki er lengur miðað við forsendubrest. Þar segir raunar orðrétt að ekki sé „tilgreint sérstaklega í frumvarpinu hvaða verðbólguviðmiði gengið verður út frá við leiðréttinguna heldur er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra ákvarði það með reglugerð“.
Þrátt fyrir að ekki sé miðað við neitt verðbólguviðmið er samt sem áður fullyrt að „leiðréttingin“ muni kosta 80 milljarða króna. Nú snýst þetta semsagt ekki um að „leiðrétta forsendubrest vegna verðbólguþróunar“ heldur að koma allt að 80 milljörðum króna úr ríkissjóði til hluta þjóðarinnar vegna þess að Framsóknarflokkurinn var búinn að lofa henni peningum! Og Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti að láta ríkissjóð borga til að komast til valda! Þetta heitir á mannamáli að kaupa kosningar.
Skot í myrkri
Hin talan, 70 milljarðarnir sem fólk á að fá að greiða skattfrjálst inn á húsnæðislánin sín, er síðan skot í myrkri. Tryggvi Þór Herbertsson, skuldaleiðréttingarstjóri ríkisstjórnarinnar, gekkst fúslega við því í viðtali við Morgunútvarpið á fimmtudag að hafa ekki hugmynd um hvernig talan væri tilkomin. Enda ógjörningur fyrir ríkisstjórnina að áætla hversu margir muni velja að eyða séreignasparnaðinum sínum í steypu næstu árin.
Það gætu vissulega orðið 70 milljarðar króna. En það gætu líka orðið 100 milljónir króna. Það er ógjörningur að segja til um það og því ótrúlega bíræfið að henda fram fastri tölu án þess að hafa neitt fyrir sér um hana. En 150 milljarðar króna litu vissulega betur út í glærushowi stjórnarherranna en til dæmis 80,1 milljarður króna. Sérstaklega þegar flestir töldu upphaflega loforðið vera upp á 300 milljarða króna í beinhörðum peningum.
Og hverjir eiga séreignalífeyrissparnað? Íslendingar eru búnir að taka út 100 milljarða króna af slíkum frá byrjun árs 2009 til að henda í verðbólgin húsnæðislán eða einkaneyslu. Hagvöxtur undanfarinna ára er að öllum líkindum að stóru leyti drifinn áfram af þessum úttektum, gengislánaendurgreiðslum, makríl og túristum.
Í dag eru 80 þúsund Íslendingar án séreignalífeyrissparnaðar. Á vinnumarkaði eru rúmlega 180 þúsund. Af þeim 100 þúsund sem eru að greiða í séreign verður að áætla að dágóður hluti muni velja að nota sparnaðinn sinn frekar í að auðvelda ævikvöldið en í niðurgreiðslu á steypu. Það hugsa ekki allir Íslendingar í korterum, þótt stjórnmálamenn virðist halda það.
Ónýtt ævikvöld
Þær skemmdir sem síðustu tvær ríkisstjórnir hafa unnið á séreignalífeyfirsparnaðarkerfinu eru ekkert grín. Það virðast fæstir átta sig á að lágmarkseftirlaunalífeyrir í dag er 219 þúsund krónur. Lífeyrissjóðakerfið okkar stendur ekki undir þeim skuldbindingum sem skapast hafa. Til þess vantar tæpa 900 milljarða króna í kerfið. Ríkið, sem er nú upptekið við að gefa peninga til einhverra og hækka ekki laun kennara, skuldar kerfinu um helming þeirrar upphæðar. Auk þess greiðir það rúmlega 40 milljarða króna í lífeyrisgreiðslur á ári. Og sú upphæð á eftir að vaxa gríðarlega á næstu árum ef vandi kerfisins verður ekki leystur, enda mun fjöldi Íslendinga sem er yfir 67 ára þrefaldast á næstu 45 árum.
Þar sem langflestir Íslendingar eru með undir 500 þúsund krónum á mánuði munu þeir fá lágmarksframfærslu þegar þeir fara á eftirlaun ef þeir eru ekki með séreignalífeyri. Framfærsluviðmið Velferðarráðuneytisins, sú upphæð sem einstaklingur þarf að þéna til að lifa af í íslensku samfélagi, er 290 þúsund krónur á mánuði. Án séreignar stefnir í að þorri íslenskra gamalmenna muni vera undir fátæktarmörkum. En sitjandi ráðamönnum er alveg sama um það. Þegar þessi vandamál raungerast þá verða einhverjir aðrir við stjórnvöllinn sem þurfa að takast á við þau.
Þetta reddast...líklegast ekki
Það stefnir í að tugþúsundir Íslendinga muni ekki hafa efni á því að verða gamlir. Annað hvort þarf að mæta þessu gríðarlega stóra vandamáli núna eða færa það skattgreiðendum framtíðar að halda lífi í eldri borgurum landsins. Ef áfram heldur sem horfir mun stór hluti Íslendinga verða í þeirri stöðu að þurfa að fjárfesta markvisst í lottómiðum og happaþrennum og vonast eftir þeim stóra til að geta dregið fram lífið í ellinni. Eða bara deyja fyrr en við erum farin að gera, því ævikvöldið verður svo sannarlega ekki áhyggjulaust.
En þetta skiptir engu máli í dag. Ríkisstjórnin lifir í núinu. Og núið snýst um að gefa tugmilljarða króna skattfé til fólks sem þarf ekki á því að halda með snilldarlegri tæknilegri útfærslu sem kostar 300 milljónir króna og gerir úttektina auðveldari en að panta pizzu. Það er endurgreiðslan fyrir völdin sem síðustu kosningar færðu henni. Hitt reddast.
Skynsemin og jarðtengingin segir manni hins vegar að þetta reddist ekkert. Það þarf stórkostlegt átak til að redda þessu. Og það að sólunda tugmilljarða króna skattfé í ómarkvissa leiðréttingu/niðurfellingu/peningagjöf/millifærslu er andstæðan við það að redda þessu.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á aðalfundi Seðlabankans í gær að við ættum „að temja okkur að búa í haginn fyrir framtíðina, í stórum sem smáum atriðum“. Hann ætti kannski að hlusta minna á Framsókn og meira á sjálfan sig.