Það hafa ekki allir notendur QuizUp spurningaleiksins verið ánægðir með þær veigamiklu breytingar sem nýlega voru gerðar á leiknum og hafa sumir þeirra skrifað harða gagnrýni um breytingarnar í App verslun Apple, þaðan sem leikurinn er sóttur. Þorsteinn Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla, útgefanda leiksins, segir fyrstu dagana eftir útgáfuna hafa verið nokkuð erfiða en þó skemmtilega. Viðbrögðin sýni hversu ástríðufullir margir notendur leiksins eru, en um 35 milljónir manna hafa sótt leikinn frá því hann kom út í nóvember 2013.
Aðeins eru um tvær vikur síðan miklar breytingar voru gerðar á QuizUp. Leikurinn er nú einnig samfélagsmiðill og minnir viðmótið að mörgu leyti á Facebook, þar sem notendur geta deilt status-uppfærslum, myndum og spjallað sín á milli. Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað nokkuð um breytingarnar, meðal annars The Verge, Business Insider og TechChrunch.com.
„Það var hávær minnihluti notenda, vanir notendur, sem voru óánægðir með þessar breytingar á leiknum. Breytingar eru oft erfiðar fyrir vanafasta notendur. Það er eitthvað sem Facebook þekkir til dæmis mjög vel, það heyrast alltaf óánægjuraddir þegar þar eru gerðar breytingar.Við höfum fengið að kynnast því,“ segir Þorsteinn.
Viðbrögð notenda QuizUp í App Store voru misjöfn eftir uppfærslu leiksins og mörg hver mjög neikvæð.
QuizUp brást við og svaraði að nokkru óánægjuröddum. „En það sem gerðist var það að notendur sjálfir fóru að rífast sín á milli og verja breytingarnar,“ segir Þorsteinn. „En það sem við gerðum núna var að í stað þess að breyta leiknum smám saman þá hentum við í mjög stóra breytingu á einni nóttu. Sumir urðu reiðir en öðrum fannst þetta bara geggjað. Þetta eru fáir notendur sem eru brjálaðir, af milljónum sem spila leikinn.“
Fólk hætti í QuizUp – Notkunin eykst á ný
Vinsældir QuizUp jukust hratt eftir útgáfu leiksins í nóvember 2013. Leikurinn sat í efstu sætum vinsældarlista App Store, mikið var fjallað um hann í erlendum fjölmiðlum og fjárfestingasjóðir vildu ólmir koma að borðinu. Fyrir og í kringum útgáfu leiksins safnaði Plain Vanilla yfir 27 milljónum dollara, jafnvirði um 3,5 milljarða króna á gengi dagsins í dag. Fjárfestar eru meðal annars sjóður í eigu Tencent, kínversks tæknirisa sem er eitt stærsta fyrirtæki íheims, og Sequoia, virtur fjárfestingasjóður úr Kísíldal.
Vinsældirnar dvínuðu nokkrum mánuðum eftir útgáfu leiksins en samtals hafa um 35 milljónir manns sótt leikinn. Með breytingunum í dag reynir Plain Vanilla að fá notendur til að nota leikinn meira og lengur. Að QuizUp sé ekki aðeins snjallsímaleikur heldur samfélag.
Spurður hvort það séu nýir eða gamlir notendur sem eru að spila nýjustu útgáfu QuizUp segir Þorsteinn að það sé nokkuð jöfn skipting þótt enn séu það frekar eldri notendur. „Á góðum degi eru yfir 100 þúsund notendur að koma nýir inn í leikinn. Við erum að byrja á því ferli að virkja eldri notendur og þar eigum við mikið inni. Við vildum koma leiknum út en það er ýmislegt sem þarf að að laga. Það er allt annað að keyra leikinn í þúsund manna prufu-umhverfi (beta-umhverfi) heldur en eftir útgáfu, þegar allt í einu milljón manns eru að nota kerfið. En tölurnar sem við sjáum um virkni eru virkilega spennandi.“
Hvernig hafa notendur tekið í nýja samfélagsmiðla-hluta QuizUp?
„Það sem okkur hefur einmitt fundist skemmtilegast er að notkun á þeim hluta er gríðarleg,“ segir Þorsteinn en tekur fram að vissulega séu breytingarnar aðeins um tveggja vikna gamlar.
„Í eðli sínu eru leikir þannig að fólk spilar þá rosalega mikið en hættir síðan að spila. Þetta er helsta áskorunin þegar leiknir eru gefnir út og var það fyrir okkur. Í byrjun voru allir að spila QuizUp en síðan missum við fólk út, það fer í næsta leik.“ Þetta er ekki einsdæmi, og Þorsteinn bendir á að enginn spili Angry Birds lengur.
„Mörg leikjafyrirtæki reyna að gera nýja leiki og nota safn þeirra notenda sem þau hafa af fyrri leiknum, þau reyna að færa notendur frá gamla leiknum yfir í þann nýja. Við fórum aðra leið og byggðum upp samfélag eða network. Okkar tilgáta er sú að þegar fólk byrjar að eiga í samskiptum og skráir sig inn til þess, þá eykst notkunin, það sem kallað er retention notenda.
Við sjáum í dag að fólkið sem notar samfélagsmiðla-hlutann, hvort sem það er spjallið eða póstar, það er með miklu meira retention heldur en aðrir notendur. Fyrir okkur er þetta staðfesting á að ákvörðunin var rétt.“
Leikur frekar en samfélagsmiðill
Starfsfólk Plain Vanilla hefur tekist á við ýmis vandamál sem fylgja rekstri samfélagsmiðla á fyrstu vikum eftir uppfærsluna. „Við erum með allt annað dýr í höndunum. Þetta er iðandi samfélagsmiðill þar sem allskonar mál koma upp, pólitísk mál, hakkarar og fólk reynir að setja inn klámmyndir. Þetta er algjör geðveiki og við höfum haldið öllu gangandi. Þetta er mikil vinna en rosalega spennandi.“
Eins og Þorsteinn lýsir því sjálfur, þá er QuizUp í dag annaðhvort leikur með mikla möguleika til samfélagsmiðlanotkunar sem minnir á Facebook, eða samfélagsmiðill með eina mestu möguleika á leikjanotkun sem þekkist.
En hvort viljiði vera, samfélagsmiðill eða leikur?
„QuizUp er leikur. Við munum halda áfram að fá notendur vegna þess að þeir vilja spila leik. Í dag er enginn að leita að nýjum samfélagsmiðli. Okkar stefna er að fólk kemur fyrir leikinn en helst inni útaf samfélaginu,“ segir Þorsteinn.
Nýir tekjumöguleikar – Auglýsingar í QuizUp
Ein helsta spurningin sem varðar framtíð Plain Vanilla snýr að tekjuöflun. Ólíkt mörgum öðrum leikjum fyrir snjallsíma, til að mynda spurningaleiknum Trivia Crack, þá eru engar auglýsingar í QuizUp og ekki er sérstaklega lagt upp með að notendur kaupi aukapakka eða slíkt í leiknum.
Hverju breytir nýja útgáfan fyrir tekjuöflun og hverjar eru áherslurnar í þeim efnum?
„Hún verður meira í formi auglýsinga og tekjur munu koma frá auglýsendum frekar en notendum sjálfum. Það er nokkur skýr munur milli leikja og samfélagsmiðla. Leikir ganga út á að selja aukpakka og slíkt en við höfum ekki gert slíkt. Við munum kynna þetta betur á næstu mánuðum og einnig aukin samstarfsverkefni og styrkt verkefni. Það höfum við gert svolítið í gegnum tíðina, til dæmis með Google og Coca Cola. Við erum komin með enn betri vöru fyrir slíkt,“ segir Þorsteinn.
Spurður hvort auglýsingar muni þá birtast í QuizUp líkt og þekkist til dæmis á Facebook segir Þorsteinn að það sé til skoðunar. „Þetta er gríðarlega þröngur stígur að feta og maður þarf að passa sig. Notendur bregðast við minnstu breytingum. Núna höfum við þetta kerfi eða platform sem við byggjum ofan á. Það er auðvelt að bæta og breyta.
Mæla réttu hlutina – Notkunin eykst um tíu mínútur
Þegar leikurinn var uppfærður í síðasta mánuði kleif hann vinsældarlista App Store og sat þar í kringum 30. sætið. Hann er nú horfinn af topp 100 listanum.
Er þetta öðruvísi vegferð en síðast, þegar leikurinn varð eitt vinsælasta app í heimi á örfáum dögum?
„Ég segi oft við starfsfólkið að þótt það sé gaman að horfa á vinsældarlistana og tölurnar um niðurhal, þá gefa þær ekki rétta mynd af verðmætunum sem við viljum búa til. Ef að stærstur hluti þeirra milljóna sem sækja leikinn hætta að nota hann eftir mánuð þá skapar það lítil verðmæti. Í dag horfum við á hversu margir eru raunverulega að nota vöruna og hversu mikið. Það er áhugavert að eftir nýju útgáfuna þá jókst meðalnotkun notenda úr 18 mínútum á dag í 28 mínútur. Við erum að horfa á réttu hlutina,“ segir Þorsteinn. Hann bendir einnig á tæknilegu hliðina, það er að uppfærsla leiksins hefur ekki áhrif á vinsældarlista App Store, aðeins þegar öpp eru sótt í fyrsta sinn.