Ívor efndu Píratar til fundar þar sem fjallað var um réttindi borgara í samskiptum við lögreglu. Undirritaður sat þar fyrir svörum og fjallaði um þessi mál frá sjónarhóli lögreglu. Það var þarft og gott frumkvæði af hálfu Pírata að vekja máls á þessu, ekki síst í ljósi þess að þekking margra á réttindum sínum í samskiptum við lögreglu er lítil og oftar en ekki fremur fengin úr bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum heldur en íslenskum veruleika.
You have the right to remain silent…
Þennan frasa þekkja margir einmitt úr bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Um er að ræða staðlaðan frasa sem bandarískir lögreglumenn þylja yfir þeim sem handteknir eru af lögreglu. Frasinn er kenndur við mann að nafni Ernesto Arturo Miranda, en áhugasamir geta kynnt sér sögu hans og tilurð frasans m.a. á Wikipedíu. Spurt var á fundinum hvers vegna ekki væri til slíkur íslenskur frasi og hvaða reglur giltu í þessum efnum. Til að gera langa sögu stutta eru bandarískt og íslenskt réttarfar keimlík hvað þetta varðar. Samkvæmt íslenskum lögum þarf lögregla að upplýsa handtekinn mann um ýmis atriði við handtöku. Upplýsa þarf um ástæður handtöku, rétt sakbornings til að hafa samband við lögmann og eftir atvikum nánustu vandamenn sína og einnig er lögreglu skylt að verða við ósk hans um að tilefna honum verjanda. Þá skal lögregla benda sakborningi á það með ótvíræðum hætti að honum er óskylt að svara spurningum varðandi refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök. Yfirleitt er þessum upplýsingum miðlað til handtekins manns þegar við handtöku en í ákveðnum tilvikum er slíkt ekki unnt vegna ástands viðkomandi.
Handtekinn maður er fluttur á lögreglustöð eftir handtöku ef hann er ekki þegar látinn laus og þá er honum kynnt sérstakt upplýsingablað handa þeim sem hefur verið handtekinn. Þar eru tíunduð öll framangreind atriði og fleiri til og undirritar hinn handtekni blaðið eftir að hafa farið í gegnum það. Ef viðkomandi neitar að kynna sér slíkt blað eða er ófær um að undirrita það vegna ástands síns er það skráð ásamt öðrum atriðum sem skrá skal í slíkum tilvikum. Slíkt upplýsingablað er til reiðu á mörgum tungumálum á öllum lögreglustöðvum. Handtekinn mann skal leiða fyrir dómara án undandráttar og ávallt innan 24 klukkustunda frá handtöku.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_10/48[/embed]
Húsleit og fleiri úrræði
Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er lögreglu heimilt að beita fleiri þvingunarúrræðum í tengslum við rannsóknir mála en handtöku. Þetta eru úrræði á borð við leit og líkamsrannsókn, sýnatöku, haldlagningu muna og fleira. Almenna reglan er sú, þegar kemur að slíkum úrræðum, að úrskurður dómara sé til staðar nema ótvírætt samþykki hlutaðeigandi liggi fyrir. Úrræði eins og leit er þó heimilt án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum. Lögreglu er einnig heimilt að leita á handteknum mönnum að vopnum eða öðrum hættulegum munum án úrskurðar dómara. Þá er heimilt að leita án dómsúrskurðar á víðavangi eða í húsakynnum eða farartækjum sem opin eru almenningi eða hver og einn getur átölulaust gengið um.
Í heimi bandarísks sjónvarpsréttarfars tíðkast eins og margir þekkja að samið sé um ívilnanir varðandi refsingar, heimfærslu til refsiákvæða og fleira í þeim dúr ef sakborningur er samvinnuþýður. Slíkt er ekki heimilt hér á landi og beinlínis tekið fram í reglugerð um réttarstöðu handtekinna manna að lögregla skuli ekki gefa sakborningi fyrirheit um ívilnanir eða fríðindi ef hann ber á ákveðinn hátt. Hins vegar er lögreglu heimilt að vekja athygli sakbornings á því ákvæði hegningarlaga sem felur í sér heimild til refsimildunar, upplýsi sakborningur um aðild annarra að brotinu. Jafnframt að ákæruvaldið muni gera grein fyrir því komi málið til dóms að slík aðstoð hafi verið veitt og að refsing muni verða reifuð í samræmi við það. Er ákærendum heimilt að leggja til allt að þriðjungs mildun refsingar þegar svo háttar til.
Önnur réttindi í samskiptum við lögreglu
Lögreglan hefur ekki einungis það hlutverk að rannsaka sakamál og handtaka grunaða einstaklinga. Henni ber að halda uppi lögum og reglu, tryggja öryggi borgaranna og réttindi, og hefur ýmsar heimildir samkvæmt lögreglulögum í því skyni. Í lögreglulögum segir að lögreglu sé heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra brotum eða stöðva þau.
Í þessu skyni er henni m.a. heimilt að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl á ákveðnum svæðum, vísa á brott eða fjarlægja fólk, fyrirskipa stöðvun eða breytingu á aðgerðum eða starfsemi, fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim. Óhlýðnist maður fyrirmælum lögreglu sem sett eru fram á þessum grunni getur hún gripið til nauðsynlegra ráðstafana á hans kostnað til að koma í veg fyrir að óhlýðni hans valdi tjóni eða stofni almenningi í hættu. Þá er lögreglu heimilt að krefjast þess að maður segi til nafns síns, kennitölu og heimilisfangs og sýni skilríki því til sönnunar.
Upplýsingar í skrám lögreglu
Á grunni starfa sinna safnar lögreglan miklu magni upplýsinga sem skráðar eru í málaskrá og dagbók lögreglu eftir atvikum hverju sinni. Strangar reglur gilda um meðferð þeirra upplýsinga sem þar er að finna en í gildi er sérstök reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Samkvæmt þeim reglum á hver sem er rétt á því að fá upplýsingar um hvað er skráð um hann sjálfan í skrám lögreglu, en þó eru á því takmarkanir ef óhjákvæmilegt er að þær upplýsingar fari leynt vegna lögreglustarfa eða ef það er nauðsynlegt til að vernda hinn skráða sjálfan eða réttindi og frelsi annarra.
Þær upplýsingar sem hér er að finna um réttindi almennings í samskiptum við lögreglu er að finna í ýmsum lögum og reglugerðum. Í þessari grein er leitast við að draga helstu atriðin saman á einn stað til fróðleiks og hægðarauka fyrir þá sem vilja kynna sér þær reglur sem um þetta gilda hér á landi.