Íslensk þjóð mun taka handboltasótt síðar í dag þegar handboltalandsliðið hefur leik á enn einu stórmótinu. Árum saman hefur svitaböðuð hópglíman lyft íslensku samfélagi uppúr skammdeginu og dægurþrasinu í janúar og þjappað því saman á bakvið liðið, sem aldrei er kallað neitt annað en „strákarnir okkar“.
Kjarninn rifjar af þessu tilefni upp nokkrar eftirminnilegar lokakeppnir og ólympíuleika sem handboltalandsliðið hefur tekið þátt í. Keppnir sem annað hvort skildu eftir jákvæðar minningar eða súrt bragð í munni.
Ólympíuleikarnir í Los Angeles 1984
Íslenska landsliðið komst fyrst á Ólympíuleika árið 1972, þegar þeir voru haldnir í München í Þýskalandi. Næst komst liðið, nokkuð óvænt, inn á leikanna í Los Angeles 1984. Ástæðan var sú að Sovétríkin og nokkrar aðrar Austur-Evrópuþjóðir drógu lið sín til baka. Þar náði það sjötta sæti, sem var langt yfir væntingum.
Umfjöllun úr Morgunblaðinu um frammistöðu liðsins í Los Angeles.
Olympíuleikarnir í Seoul 1988
Liðið komst á aðra Ólympiuleika sína í röð. Stefnt var á verðlaunasæti en það gekk ekki eftir. Liðið hans Bogdans Kowalczyk olli miklum vonbrigðum og endaði í áttunda sæti. Fyrir vikið þurfti liðið að fara í B-keppnina í Frakklandi nokkrum mánuðum síðar til að vinna sér inn sæti á HM 1990 í Tékklandi.
Umfjöllun úr Morgunblaðinu um handboltalandsliðið sem lék í Seoul 1988.
B-keppnin 1989
Þrátt fyrir vonbrigðin í Seoul átti Ísland frábært handboltalið á níunda áratugnum án þess að það skilaði neinum verðlaunum á alþjóðavettvangi. Þ.e. þangað til að það kom að B-keppni heimsmeistaramótsins í Frakklandi árið 1989. Þá small allt og liðið vann Pólverja í úrslitum. Og hlaut sín fyrstu alþjóðlegu verðlaun.
Ísland vann B-keppnina í Frakklandi 1989. Svona leit forsíða íþróttablaðs Morgunblaðsins tveimur dögum síðar.
Ólympíuleikarnir í Barcelona 1992
Í þriðja skiptið í röð komst handboltalandsliðið á Ólympíuleika. Þremur dögum fyrir setningu leikanna var tilkynnt að Júgóslavíu yrði meinuð þátttaka og Íslendingum boðið að hlaupa í skarðið. Væntingar voru því ekki miklar. Liðið stóð sig hins vegar vonum framar, náði í undanúrslit og endaði í fjórða sæti eftir tap gegn Frökkum í bronsleiknum. Þetta var, á þeim tíma, besti árangur íslenska liðsins á stórmóti í handbolta.
Ísland tapaði fyrir Samveldinu í undanúrslitum og mætti Frökkum í leik um þriðja sætið.
Evrópumótið árið 2002
Nokkrir af bestu handboltamönnum Íslandssögunnar voru farnir að draga vagninn í landsliðinu á þessu móti. Guðjón Valur Sigurðsson var í vinstra horninu, Dagur Sigurðsson á miðjunni og Ólafur Stefánsson í hægri skyttunni. Ísland vann bæði undan- og milliriðil sinn áður en liðið tapaði fyrir Svíum í undanúrslitum. Strákarnir mættu svo Dönum í leik um þriðja sætið sem tapaðist líka. Fjórða sætið því staðreynd. Eftirminnilegasti leikurinn úr þessari keppni var samt örugglega jafnteflisleikur við hið firnasterka lið Frakka, sem lauk 26-26.
https://www.youtube.com/watch?v=zsC9SYJke7I
Silfur á Olýmpíleikum í Pekíng 2008
Íslenska mikilmennskubrjálæðið sem tröllreið öllu á árunum fyrir hrun taldi sig hafa fengið staðfestingu á genatískum yfirburðum okkar sem yfirburðarþjóð þegar „stórasta land í heimi“ komst í úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum í Pekíng 2008, rétt rúmum mánuði áður en íslenska efnahagskerfið lagðist á hliðina. Liðið spilaði stórkostlega, Ólafur Stefánsson gaf stórkostleg viðtöl og besta handboltalið sem Ísland hefur átt uppskar loks verðlaun á stórmóti. Tekið var á móti silfurhetjunum eins og byltingarleiðtogum, fálkaorðan hengd í alla sem komu nálægt liðinu utan nuddarans og stjórnmálamenn duttu nánast um hvern annan þegar þeir voru að reyna að eigna sér hlut í „strákunum okkar“. Ógleymanlegt, á svo margan hátt.
https://www.youtube.com/watch?v=YzzzazinUJg
Brons á EM í Austurríki 2010
Tveimur árum eftir silfurævintýrið var stemningi í íslensku samfélagi aðeins önnur en í ágúst 2008. Efnahagshrun og afleiðingar þess gerðu það að verkum að þjóðin þurfti lyftistöng. Handboltalandsliðið sá um hana. Mótið fór fram í Austurríki og enn komust Íslendingar í undanúrslit, þar sem firnasterkir Frakkar flengdu liðið 36-28. Í leiknum um þriðja sætið var hins hins vegar allt annað upp á teningnum og þriggja marka sigur á Pólverjum tryggði verðskuldað brons.
https://www.youtube.com/watch?v=Q2xl4hreMsM
Til að hita upp fyrir leikinn á eftir er ekki úr vegi að rifja upp...
https://www.youtube.com/watch?v=UnSQS1XqCjg
Áfram Ísland!