Leiðréttingin á verðtryggðum húsnæðislánum hefur verið kunngjörð. Almenningur veit núna hvað kom upp úr pakkanum. Það var óvænt gleði í einhverjum tilvikum, vonbrigði fyrir aðra og fyrirsjáanlegt hjá sumum. Heilt yfir er aðgerðin öll fordæmalaus, eins og stjórnvöld hafa raunar sagt sjálf. Hún felur í sér ójöfn tækifæri fólks, til langrar framtíðar, í boði ríkissjóðs. Ég hefði sjálfur kosið að nýta hverja krónu sem fæst úr bankaskattinum til þess að lækka skuldir ríkissjóðs, en stjórnvöld ákváðu að fara þessa leið. Það þarf að virða. Þetta er ekkert í fyrsta skipti sem stjórnmálamenn gera eitthvað, sem manni finnst einkennilegt, með féð í ríkissjóði.
Broddflugan
Annað atriði finnst mér líka mikilvægt: Það er mjög gott fyrir íslenskt samfélag, og stjórnvöld, að það fari fram mjög gagnrýnin, hörð og beitt umræða um þessi mál þegar aðgerðinni er hrint í framkvæmd. Þessi aðgerð mun hafa bæði mikil skammtímaáhrif og líka mikil langtímaáhrif sömuleiðis, eins og stjórnvöld hafa raunar sagt, og þess vegna er þörf á því að öllum steinum sé velt við. Fjölmiðlar voru eins og viðhlæjendur fyrir hrun bankanna og voru eðlilega gjörsamlega trausti rúnir eftir hrunið. Frá árinu 2002 til 2008, á sex ára tímabili, var allt fjármálakerfið einkavætt, hámarksíbúðalán hækkuð í 100 prósent um tíma, sem var gjörsamlega glórulaust, og bankakerfið margfaldaðist að stærð samhliða mestu efnahagsbólu sögunnar, bara svo eitthvað sé nefnt. Umræða um þetta tímabil var aldrei nægilega gagnrýnin, held ég að sé almennt viðurkennt. Skellurinn kom svo að lokum. Það er mikilvægt að þau mistök fjölmiðlana verði ekki gerð aftur. Stjórnvöld eiga að finna fyrir því að broddfluga gagnrýninnar hugsunar er á sveimi og tilbúin að stinga á kýlum þegar þau sjást. Þannig finnst mér eðlilegt að sé tekið á leiðréttingunni út frá sjónarhóli blaðamennskunnar. Ekki bara til þess að upplýsa og velta upp ólíkum sjónarmiðum í aðdraganda, á meðan og í kjölfar þess að aðgerðinni er hrint í framkvæmd, heldur til þess að byggja vörður til að fara eftir í framtíðinni. Sögulegt yfirlit fyrir rökræðu þjóðarinnar um þetta risamál.
Stóru fréttina í atburðum síðustu daga finnst mér að finna í skilaboðunum sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra er að senda innan úr haftabúskapnum til sjóðana sem eiga kröfur í búa bankanna og raunar einnig kröfur á fleiri fyrirtæki. Þessi ráðstöfun, áður en dómsmál hafa verið til lykta leidd, er aðeins fyrsta skrefið af mörgum sem stigin verða á næstunni og tengjast afnámi og rýmkun fjármagnshaftanna, að því er Sigmundur Davíð greindi frá í grein í Morgunblaðinu í gær. Þetta er merkilegt.
Rökrétt framhald
Í mínum huga er þetta rökrétt framhald af pólitísku lífi Sigmundar Davíðs. Það hófst með óvæntum sigri á landsfundi Framsóknarflokksins 18. janúar 2009, fyrir bráðum sex árum. Hann hefur síðan farið eins og stormssveipur um pólitískt landslag og hefur yfir sér áru ólíkindatóls. Andstæðingar hans ná engu taki á honum, og sumir beinlínis hræðast hann. Svo eru líka hópar sem bæði elska hann og hata hann. En hann hefur alltaf orðið ofan á hingað til. Með leiðréttingunni tókst honum að ryðja Sjálfstæðisflokknum frá sér og koma baráttumáli sínu í gegn, þvert á stefnu Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar. Kraumandi andstaða er við þetta mál meðal hægri manna í Sjálfstæðisflokknum, sem reyndar má deila um hversu margir eru í reynd.
Sigmundur Davíð finnst mér vera að boða uppgjör við kröfuhafa í bú föllnu bankanna, sem hefur það að markmiði að hámarka verðmæti fyrir Ísland og íslenska ríkið. Þessir 80 milljarðar sem fóru í leiðréttinguna verða aðeins lítill hluti heildarávinningsins af því uppgjöri. Hugsanlega eigum við eftir að sjá peninga fara í nýjan spítala, jarðgöng og ýmsar innviðafjárfestingar til viðbótar, áður en langt um líður. Peningalegar stærðir eru á þeim skala, taldar í hundruðum milljarða króna. Ég hugsa að þetta sé markmið Sigmundar Davíðs. Að fara í stríð við kröfuhafana, með fullvissu um að lagalegur réttur til aðgerða gegn þeim, innan fjármagnshafta, sé Íslandi í hag. Hann sýndi það í Icesave-málinu að þetta er hann tilbúinn að gera - ólíkt Bjarna Benediktssyni. Augljóslega gæti þetta verið núningspunktur milli stjórnarflokkanna á næstunni.
Þó leiðréttingin birtist almenningi sem uppspretta gleði eða pirrings í dag og á næstunni, þá er hún líka að sumu leyti stríðsyfirlýsing. Fyrsta stóra skrefið í pólitísku stríði Sigmundar Davíðs gegn sjóðunum í kröfuhafahópnum sem með sönnu má segja, að haldi Íslandi í gíslingu haftabúskapar, meðan mál slitabúanna eru óleyst. Það verður forvitnilegt að fylgjast með því stríði og pólitískum afleiðingum þess.