Úr daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum.
Eiður Smári Guðjohnsen, einn dáðasti og besti knattspyrnumaður sem komið hefur frá Íslandi, æfir þessa dagana með Bolton á Englandi. Ferill Eiðs Smára, sem er 36 ára, fer brátt að klárast og hefur hann sagt sjálfur að 50 prósent líkur séu á því að hann hætti og 50 prósent líkur á því að hann haldi áfram eins og mál standa nú. Eiður Smári átti frábæran tíma með Bolton á árunum 1998 til 2000, þegar hann var seldur fyrir fjórar milljónir punda til Chelsea.(Kjarninn vill benda lesendum sínum á skemmtilega lýsingu á því þegar Eiður Smári fékk samning hjá Bolton, í ævisögu Guðna Bergssonar, fyrrum liðsfélaga Eiðs Smára. Í stuttu máli mætti Eiður Smári alltof þungur, eftir erfið meiðsli hjá PSV og stuttan spilatíma hjá KR, á æfingu hjá Bolton og spilaði léttan æfingabolta á lítinn völl, þá tæplega tvítugur. Guðni segir að Eiður Smári hafi, þrátt fyrir afleitt líkamlegt form, verið miklu betri en allir aðrir í fótbolta, og það hafi verið ljóst eftir hálftíma að hann var að fara fá samning! Colin Todd, þáverandi stjóri liðsins, þurfti ekki lengri tíma...)
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.