Ég hef stundum dundað mér við að skoða sérstaklega ríkjandi strauma og stefnur í tæknimálum og gera "tæknispá" fyrir komandi ár með áherslu á Ísland. Þetta er auðvitað til gamans gert meira en nokkuð annað, en skerpir hugsanir manns og hugmyndir sem síðan getur nýst í leik og starfi í framhaldinu.
Spáin í fyrra birtist einmitt í Kjarnanum og heppnaðist nokkuð vel, þó - og þá sérstaklega þegar - ég segi sjálfur frá. Sumt gekk að nokkru eða öllu leyti eftir. Annað ætla ég engu að síður að halda mig við þó ef til vill hafi sumt reynst ganga hægar en ég hélt fram. Facebook mun til dæmis koma fram með greiðslulausn á árinu, annars má ég hundur heita!
Að því sögðu eru hér nokkur atriði sem ég hef trú á að muni setja mark sitt á tæknigeirann á Íslandi á árinu 2015:
Sýndarveruleiki:
Næsta útgáfa af sýndarveruleikabúnaði er að líta dagsins ljós. Það er býsna erfitt að lýsa því fyrir þeim sem ekki hafa prófað hversu sterkt þessi tækni grípur mann. Hljóð- og myndgæði eru orðin slík að heilinn gleymir fljótt að ekki er um raunveruleikann að ræða og tafarlaust viðbragð við hreyfingum höfuðs og líkama því sem næst fullkomnar blekkinguna. Nokkrir framleiðendur munu að öllum líkindum setja sýndarveruleikagræjur á almennan markað á þessu ári. Oculus Rift, sem hóf sögu sína á Kickstarter, en var keypt af Facebook á árinu sem leið á tvo milljarða bandaríkjadala, setti að mörgu leyti tóninn hér og er með mjög lofandi tækni, en Sony er þeim skammt að baki og Samsung nálgast markaðinn á talsvert annan hátt með áherslu á þráðlausa tækni.
Oculus Rift setti að mörgu leyti tóninn fyrir sýndarveruleikagræjur. Fyrirtækið var keypt af Facebook á árinu sem leið á tvo milljarða bandaríkjadala.
Það er enginn vafi í mínum huga að þessi tækni verður komin í mjög almenna notkun innan 3-5 ára, þó erfitt sé að spá um það nákvæmlega hversu hraður vöxturinn verður.Eins og með flesta nýja tækni þarf áhugavert efni og lausnir til að nýta tæknina og sýna hvað í henni býr. Allnokkur íslensk nýsköpunarfyrirtæki eru þegar farin að prófa sig áfram á þessu sviði. CCP greip Oculus Rift báðum höndum mjög snemma. Valkyrie leikurinn sem þeir útbjuggu og byggir á EVE Online heiminum er með vinsælustu sýniforritum fyrir þessa tækni nú þegar. Nokkur sprotafyrirtæki hafa líka þegar litið dagsins ljós á Íslandi sem vinna með þessa tækni og má ætla áhugaverðra hluta frá þeim á árinu. Þar á meðal eru Sólfar, Mure (sem nýlega fékk fjármögnun frá Eyri) og Aldin. Ég spái því að við eigum eftir að heyra mikið af þessum fyrirtækjum á síðari hluta ársins þegar nær dregur almennri dreifingu á þessum nýju sýndarveruleikalausnum.
Rauntímavinnsla:
Hafi síðustu ár verið ár gríðargagna (e.„Big Data"), þá eru þau næstu ár rauntímavinnslu á þessum gögnum. Tölvukerfi, allt frá stjórnkerfum vinnslulína í matvælafyrirtækjum yfir í viðskiptakerfi fjármálamarkaða framleiða gríðarlegt magn gagna. Hingað til hefur verið nógu krefjandi að ná að grípa þessi gögn og greina þau svo og vinna úr þeim eftir á. Eftir því sem tækninni til þess fleygir fram og reiknigetan verður meiri - í takti við lögmál Moores - er að verða raunhæfur kostur að vinna úr þessum gögnum og bregðast við í rauntíma, jafnvel með sjálfvirkum hætti.
Þetta mun hafa í för með sér bætta þjónustu, aukna framleiðni og færri glötuð tækifæri í hvers kyns framleiðslu, sölu og þjónustu. Þetta svið hefur hlotið nafnið Operational Intelligence, sem nefna mætti "rekstrargreind" upp á íslensku. Að minnsta kosti eitt íslenskt sprotafyrirtæki - Activity Stream - hefur þegar náð umtalsverðum árangri á þessu sviði og líklegt að framsækin íslensk fyrirtæki munu byrja að huga að rekstrargreindarlausnum þegar á þessu ári.
Sprotageirinn fær fjármagn:
Þetta er nánast endurtekning á spádómi fyrra árs, en með vaxandi árangri íslenskra sprotafyrirtækja er loksins útlit fyrir að umtalsvert fjármagn fari að leita í nýsköpunargeirann. Annað væri eiginlega fráleitt. Lífeyris- og fjárfestingasjóðir innan fjármagnshafta geta varla haldið áfram að blása í fasteigna- og hlutbréfabólur innanlands án þess að einhverjum verði á endanum litið til þeirra stóru - en sannarlega áhættusömu - ávöxtunarmöguleika sem liggja í hraðvaxtarfyrirtækjum með alþjóðlegar áherslur. Þarna eru meira að segja tækifæri til að komast - að minnsta kosti óbeint - í tekjur og söluhagnað í erlendri mynt!
Frá aldamótum hefur ekki verið um auðugan garð að gresja í fjármögnunarkostum fyrir sprota- og vaxtafyrirtæki og undanfarin misseri má segja að þar hafi verið nær alger þurrð þegar fjárþörfin er komin yfir fáa tugi milljóna króna
Frá aldamótum hefur ekki verið um auðugan garð að gresja í fjármögnunarkostum fyrir sprota- og vaxtafyrirtæki og undanfarin misseri má segja að þar hafi verið nær alger þurrð þegar fjárþörfin er komin yfir fáa tugi milljóna króna. Nú er raunverulega útlit fyrir að það breytist. Nokkrir aðilar hafa verið að undirbúa stofnun áhættufjárfestingasjóða, hvern þeirra af stærðargráðunni 4-5 milljarðar króna. Ég spái því að tveir af þessum hópum nái markmiði sínu og verði þá þar með tveir stærstu sjóðir af slíku tagi sem settir hafa verið upp á Íslandi. Þetta mun breyta nýsköpunarlandslaginu verulega og gera íslenskum frumkvöðlunm kleift að reyna sínar hugmyndir hraðar og ákveðnar en hingað til hefur tíðkast.Sífellt fleiri aðilar í þessum geira eru líka að ná að mynda sterk tengsl við erlenda fjárfesta, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Slík tengsl geta undið hratt upp á sig ef vel gengur og eru allmörg dæmi um að nýsköpunarklasar hafi myndast hér og þar í heiminum í kringum eitt eða tvö sprotafyrirtæki sem náð hafa árangri og þar með beint kastljósi og tengslum "heim".
Plain Vanilla leggur allt undir:
Spútnikfyrirtækið Plain Vanilla stendur í ströngu þessa dagana. Eins og fram hefur komið allt frá því að fyrirtækið tók inn stóra fjármögnun frá heimsþekktum fjárfestum í lok árs 2013, stefnir fyrirtækið á að breyta spurningaleiknum vel heppnaða - QuizUp - í samfélagsnet sem tengi saman fólk með sameiginleg áhugamál. Ef þeim tekst viðlíka vel til með þessa umbreytingu og þeim tókst með markaðfærslu leiksins í upphafi getur þetta verið ótrúlega stórt tækifæri.
Þorsteinn B. Friðriksson er framkvæmdastjóri Plain Vanilla og Ýmir Örn Finnbogason fjármálastjóri fyrirtækisins.
Áhættan er mikil, en það sem reynt er við er af svipuðu tagi og það sem Instagram, Snapchat eða WhatsApp hefur áður tekist: að ná með sterkum hætti til tuga eða jafnvel hundruða milljóna manna. Takist það - sem auðvitað er langt í frá gefið - mun „Thor" hugsanlega í alvöru standa frammi fyrir því að þurfa að svara spurningunni hvort hann sé til í að selja fyrirtækið fyrir milljarð dollara (spólið á ca. 4:10 í myndbandinu). Líklega hefur ekkert íslenskt sprotafyrirtæki áður staðið frammi fyrir jafn stóru tækifæri. Til að þetta gangi upp þarf ekki bara frábæra útfærslu, framúrskarandi markaðssetningu og sterka eftirfylgni, heldur líka heilmikla heppni. Þetta mun allt spilast út með einhverjum hætti núna á árinu og verður verulega spennandi að fylgjast með.
Íslendingar læra alþjóðlega sölu og markaðssetningu:
Það sem háð hefur flestum íslenskum tæknifyrirtækjum í gegnum tíðina er markviss og góð sölu- og markaðsstarfsemi. Mörg þeirra hafa verið með glimrandi góðar hugmyndir, fína tækni, pakkað þeirri tækni inn sem ágætum vörum en síðan klikkað algerlega á sölu- og markaðsstarfinu. Mér skilst reyndar að þetta sé að sumu leyti tilfellið í sjávarútveginum líka og margir sem telja að þar sé hægt að gera miklu betur, þó þar sé þetta starf auðvitað allt annars eðlis. Núna erum við hins vegar að læra þetta - og það hratt. Og það er allt að gerast í gegnum ferðamannaiðnaðinn. Fyrirtæki í þeim geira, allt frá flugfélögunum Icelandair og WOW niður í smáa ferðaþjónustuaðila eru að ná býsna góðum tökum á markaðssetningu á leitarvélum og samfélagsmiðlum og sölu í gegnum vefinn.Það verður ómetanlegt þegar þessi þekking fer að leita á önnur - og að sumu leyti gjöfulli - mið og íslensk fyrirtæki í tæknigeiranum, þar sem framlegðin getur verið margfalt meiri, fara að njóta krafta þeirra sem nú eru að læra þessi fræði "hands on" í ferðageiranum. Þetta mun nýtast íslenskum tæknifyrirtækjum vel, sérstaklega þeirri gerð tæknifyrirtækja sem einmitt eru ef til vill best til þess fallin að vera með stóran hluta eða jafnvel alla sína starfsemi á Íslandi, það er hugbúnaðarfyrirtækja á einstaklings- eða smáfyrirtækjamarkaði sem veita þjónustu sína alfarið yfir netið (e. SaaS).
Já, sannarlega áhugavert ár framundan í íslenska tækniheiminum. Gleðilegt tækniár, 2015.