Víða í Berlín má sjá gylltar plötur greyptar í gangstéttina. Þessar litlu plötur eru áletraðar með nöfnum, fæðingar- og dánardægri fórnarlamba helfararinnar. Hver plata er minnisvarði um manneskju sem var leidd út af heimili sínu, þar sem platan er staðsett, og færð í útrýmingarbúðir, og yfirleitt má lesa úr upplýsingunum að viðkomandi hafi verið myrtur skömmu síðar, jafnvel örfáum dögum eftir handtökuna. Í nágrenni mínu má sjá þessar plötur fyrir framan mörg hús og oftast nær geng ég hugsunarlaust framhjá þeim. En stundum verður eitthvað til þess að maður staldrar við og les mikla sögu úr tölustöfunum.
Barnamorðin í Palestínu
Á sumum stöðum hafa heilu stórfjölskyldurnar verið leiddar út í dauðann, jafnvel allt upp í þrjár kynslóðir: öldruð hjón, yngri hjón og börn. Ég rakst á slíka sögu um daginn. Ein á gangi í þrúgandi hitabylgju að reyna að losna við myndir úr huga mér af dánum börnum í Palestínu. Fyrr um morguninn hafði ég límst við netið, líkt og þráhyggjusjúklingur sem getur ekki stillt sig um að endurtaka óþægilega upplifun aftur og aftur. Eins og svo oft áður hafði mér fundist ég skyldug til að smella á hverja einustu frétt um barnamorðin í Palestínu, þó ekki væri nema til að leggja mitt af mörkum til að halda þeim á lista yfir mest lesnu fréttinar og lengja þar með líftíma þeirra. Afleiðingarnar voru þær að ég gat varla litið á barnið mitt án þess að klökkna og til þess að vera í húsum hæf greip ég til þess ráðs að labba beint af augum um stund.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_08_21/52[/embed]
Spurning um stað og stund
Brátt kom ég að húsi þar sem að minnsta kosti tíu plötur voru greyptar í stéttina með örlitlu millibili, hver og ein eins og átakanleg fyrirsögn á netinu. Ég gat ekki annað en staðnæmst til að lesa þessar gömlu en þó tímalausu fréttir af örlögum fólks og í þessu tilfinninganæma ástandi sortnaði mér fyrir augum að sjá að þarna höfðu systkini verið leidd út í dauðann, annað ellefu ára stelpa, hitt tíu ára strákur.
Skyndilega var hryllingurinn svo nálægur, svo alltumlykjandi. Þessar tvær útrýmingarherferðir á fólki eru auðvitað nátengdar í sögulegum skilningi. Og önnur þeirra er að gerast núna en á öðrum stað en ég bý, í beinni útsendingu fyrir okkur samtíðarfólk fórnarlambanna; hin átti sér stað áður en ég fæddist en á staðnum þar sem ég bý núna.
Hvað vitið þið?
Mér varð hugsað til leikrits sem ég sá fyrir nokkrum árum hér í Berlín þar sem ungt fólk frá Palestínu, Þýskalandi og Ísrael túlkaði fjölskyldusögur sínar, tengsl þessara þjóða í sögunni og áhrif þeirrar blóðugu orsakakeðju. Hughrifin af sýningunni voru þau að ofbeldi leiði af sér meira ofbeldi. Ég man að nokkrir áhorfendur grétu þegar henni lauk og gamall maður í áhorfendasalnum hrópaði á ungu leikarana: Hvað vitið þið?
Mér skildist að þessi gamli maður hefði verið í útrýmingarbúðum, þar af leiðandi gæti enginn í salnum sett sig í spor hans. En ég efast samt ekki um að ungu leikararnir hafi vitað óþægilega mikið um ofsafengið ofbeldið sem býr í manneskjunni.
Veruleiki samlanda okkar
Ég hrökk upp úr þessum vangaveltum þegar á að giska tíu ára stelpa hjólaði yfir minnisskjöldinn um jafnaldra sína. Foreldrar hennar fylgdu hlæjandi á eftir henni svo ég flýtti mér að labba áfram.
Þegar heim kom las ég að Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og helsti tengiliður Íslendinga við fólkið í Palestínu, hefði misst kæran vin í sprengingu. Jafnframt las ég stutt viðtal við íslenskan skurðhjúkrunarfræðing, konu sem er stödd í Palestínu að reyna eftir fremsta megni að bjarga börnum með lífshættulega áverka. Hún sagði frá þriggja ára stúlku með brotna kjálka og þriggja ára dreng sem hefði misst fótinn og minntist líka á börnin sem dóu áður en þau náðu á skurðarborðið.
Barnamorðin eru ekki fjarlægari veruleiki en svo að samlandar okkar upplifa sársaukann með íbúum Palestínu.
Ránfugl í Rússlandi
Þar sem manneskjan býr lúrir geggjunin ávallt handan við hornið og þess vegna má aldrei gleyma vægi sannrar fréttamennsku. Vinur Sveins Rúnars, Ali Abu Afrash, lést ásamt fleirum, m.a. blaðamanni frá AP, þegar hann reyndi að aftengja sprengju ásamt fjölmiðlahópi sem var að afla upplýsinga um sprengjur Ísraelsmanna. Ali Abu starfaði fyrir Doha Center for Media Freedom og aðstoðaði norræna fréttamenn við að afla upplýsinga. Menn á borð við hann fórna lífi sínu til að uppfræða umheiminn, vanir því að auðvaldsmenguð heimspressan telji það heimsfrétt þegar fjögur börn frá Ísrael deyja en sjálfsagðan hversdagsviðburð að börn í Palestínu deyi, eins og Noam Chomsky benti á.
Á sama tíma heyrir maður um afbakaðar fréttir í Rússlandi af skotárásinni á farþegaþotuna frá Malaysian Air, fréttir sem eiga að fegra Pútín í augum samlanda sinna með, að manni skilst, ágætis árangri. Staðreyndin er þó sú að Pútín vomir yfir Evrópu eins og ránfugl sem bíður færis. Færis á hverju?
Það er erfitt að segja meðan við höldum áfram að smella á Fólk í fréttum til að missa ekki geðheilsuna yfir óþægilegri fréttum.
Fjórða valdið
Tækifærissinnuð blaðamennska er óvirðing við alla þá sem hafa látist þegar stríðshaukum hefur tekist að heilaþvo almenning með því að afskræma grunngildi lýðræðisríkis, til dæmis fjórða valdið. Tækifærissinnuð blaðamennska er í mínum huga fjölmiðill sem er sniðinn þröngur stakkur sérhagsmuna og eignarhalds, sama hverrar tegundar þeir hagsmunir kunna að vera.
Kannski er ekkert til sem heitir óhlutdræg fréttamennska en fjölmiðlar þurfa að vera faglegir og forsendur þeirra augljósar um leið og þeir eru áræðnir, leitandi og frumlegir. Þeir þurfa að benda okkur á það sem okkur hugkvæmist ekki sjálfum að gúggla á netinu og hjálpa okkur að öðlast greinargóða mynd af veruleikanum í öllum sínum margslungnu og oft mótsagnakenndu myndum, án þess að lita hann litum eigenda sinna. Frjálsir og öflugir fjölmiðlar bjarga okkur frá okkur sjálfum.
Kraftaverkið Kjarninn
Til að lýðræðisríki fúnkeri sómasamlega þarf fyrst og fremst frjálsa og faglega fjölmiðla. Sem íbúar í samfélagi þjóðanna höfum við enga afsökun til að gera ekki þá kröfu til þeirra, þeir eiga jú að vernda hagsmuni barnanna okkar jafnt sem barna heimsins.
Á milli fyrri heimsstyrjaldarinnar og þeirrar síðari leið ekki miklu lengri tími en á milli seinni heimsstyrjaldarinnar og fæðingar minnar, þó að mér finnist þessi stríð svo fjarri mér. Friðurinn er aðeins andartak, aðeins spurning um stund og stað, ef við erum óheppin með annað hvort ræður geggjunin ríkjum. Helsta vörn mannkyns er upplýsingar, vandaðar fréttaskýringar og hetjustörf fjölmiðlafólks úti um allan heim sem hættir öllu sínu daglega til að vinna að eilífum minnisvarða um ofbeldi, ritskoðun, þjóðarmorð, pólitískt misferli, valdníðslu, viðskiptasamsæri, hryðjuverk, pyntingar, umhverfisspjöll og sérhagsmunagæslu. Að sama skapi stuðla voldugir fjölmiðlar í höndum hagsmunaaðila að tortímingunni, þó að í mismiklum mæli sé.
Og þá að kjarna málsins! Með þessari hugleiðingu vil ég óska hinum þarfa og hugumdjarfa fjölmiðli Kjarnanum til hamingju með eins árs afmælið. Heilt ár í lífi óháðs fjölmiðils er kraftaverk.