Það getur verið skemmtilegur samkvæmisleikur að giska á úrslit leikja. Vinnustaðir eru margir hverjir með leiki í gangi þessa dagana þar sem giskað er á úrslit leikja á HM í Brasilíu.
Hér er einn lítill samkvæmisleikur; Hver verður ráðinn næsti seðlabankastjóri og af hverju?
Hver? Ég ætla að giska á Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Af hverju? Ég held að stjórnvöld vilji gera breytingar og þá undir þeim formerkjum sem stjórnvöld hafa unnið að, bak við tjöldin og opinberlega, þegar kemur að slitabúum föllnu bankanna og snjóhengju króna í eigu erlendra aðila. Sem sagt; stjórnvöld vilja fá seðlabankastjóra sem er sammála þeim í því hvað er best að gera þegar afnám eða mikil rýmkun fjármagnshafta er annars vegar. Ragnar hefur einn umsækjenda tekið virkan og mikinn þátt í undirbúningsvinnu sem stjórnvöld hafa leitt um þessi mál, og mun alltaf standa vel að vígi þegar þetta risavaxna mál verður til umræðu í viðtölum við umsækjendur. Ekkert einstakt atriði mun ráða meiru um það hver fær starfið en þetta. Allir umsækjendur munu þó vafalítið hafa mikið fram að færa í þessum efnum, ekki síst Már Guðmundsson seðlabankastjóri sem er með mikil alþjóðleg tengsl, reynslu og þekkingu fram að færa þegar að þessum málum kemur, og hefur að minnsta kosti tvennt umfram alla aðra umsækjendur; reynslu af því að vera seðlabankastjóri og hafa verið stjórnandi hjá Alþjóðgreiðslubankanum í Basel (BIS). Ég spái því að valið hjá nefndinni sem skipar í starfið muni á endanum standa á milli Ragnars og Más. Ég hugsa að forysta Framsóknarflokksins, í ljósi áherslna hennar þegar kemur að losun fjármagnshafta (gjaldþrot fremur en nauðasamningar, erlendir kröfuhafar í slitabúin látnir taka mikinn skell), vilji ólm fá Ragnar í starfið og eflaust margir hjá Sjálfstæðisflokknum líka. Það eru þó deildar meiningar innan stjórnarflokkanna, einkum Sjálfstæðisflokksins, um hvað sé best að gera þegar kemur að losun hafta og nefndin sem skipar í starfið mun þurfa að taka tillit til pólitískra atriða í ráðningu sinni. Það er hvernig seðlabankastjórinn muni sinna sínu starfi í samhengi við pólitíska efnahagsstefnu stjórnvalda. Þetta skiptir máli jafnvel þó Seðlabanki Íslands sé sjálfstæður lögum samkvæmt. Hvað sem tautar og raular þá mun pólitík alltaf ráða för enda er skipunin pólitísk af ráðherra á endanum.
Maður saknar þess að fleiri konur en þrjár hafi ekki sótt um þetta valdamesta starf haftalandsins Íslands.
Nefnd: Ólöf Nordal, formaður bankaráðs Seðlabankans, Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Guðmundur Magnússon, fyrrum háskólarektor, mun ákveða hver fær stöðuna.
Umsækjendur:
Ásgeir Brynjar Torfason
Friðrik Már Baldursson
Haukur Jóhannsson
Íris Arnlaugsdóttir
Lilja Mósesdóttir
Már Guðmundsson
Ragnar Árnason
Sandra María Sigurðardóttir
Yngvi Örn Kristinsson
Þorsteinn Þorgeirsson