Jólahefðir eru ómissandi hluti af jólahátíðinni. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur kafaði ofan í alþjóðlegar jólahefðir, og setti saman lista yfir tíu jólahefðir sem verða að teljast stórfurðulegar, sumar hverjar í það minnsta. En líklega þjóna þær þó tilgangi sínum; að vekja gleði.
10. Ástralía
Jólin eru um hásumar í landi andfætlinganna og jólahefðir þeirra bera keim af því. Ein helsta jólahefð Ástrala er að fara í pikknikk niður á strönd. Strendurnar eru fullar af fólki. Fólk tekur með sér gervijólatré og jafnvel búninga, skellir sér í sund og grillar rækjur. Auðvitað eru brimbrettin ekki langt undan. Í raun má segja að það sé eitt stórt jólapartí á ströndinni sem byrjar um það bil viku fyrir jóladag og endar ekki fyrr en á nýju ári. Stærsta partíið er á hinni geysivinsælu Bondi strönd við Sydney.
Auglýsing
9. Mexíkó
Í borginni Oaxaca í Mexíkó er á jólunum haldin hátíð til heiðurs radísum. Sérlega færir útskurðarmeistarar skera út radísur og annað rótargrænmeti og verðlaun eru veitt fyrir fallegasta útskurðinn. Radísurnar eru sérstaklega ræktaðar fyrir keppnina, þ.e. þær eru látnar vaxa lengi í jörðinni og fá þá oft óvenjulega lögun. Þessi hefð er rúmlega aldargömul og í seinni tíð hefur þetta aukið virkilega ferðamannastrauminn til borgarinnar.
8. Þýskaland
Í Bæjaralandi á jólasveinninn hjálparsveina sem kallast Buttnmandl. Þeir eru nokkurs konar púkar sem eru umvafðir strái og utan um þá miðja eða á bakinu hanga kúabjöllur. Þeir hlaupa um og eru með mikinn hávaða og eiga að hræða burtu illa anda og vekja móður náttúru úr svefni. Þeir eru samt einnig illir enda eru þeir púkar. Fólk sem fylgist með á að syngja helgisöngva, biðja bænir og skvetta helgu vatni á þá til að flæma þá í burtu. Þetta er allt mjög ruglingslegt.
7. Bandaríkin
Undarlegasta jólaskraut sem til er er ábyggilega jólagúrkan. Hún er ekki bara gúrka, heldur súr gúrka úr gleri, sem falin er á jólatrénu. Sá sem finnur hana á að verða heppin fram að næstu jólum og sums staðar fær sá hinn sami gjöf að launum. Því hefur verið haldið á lofti að þetta sé ævagömul þýsk hefð en fyrir því er enginn fótur. Að öllum líkindum á þetta uppruna sinn í amerísku verslunarkeðjunni Woolworths seint á 19. öld. Sérstök jólagúrkuhátíð er haldin í bænum Berrien Springs í Michigan fylki.
6. Spánn
Nánar tiltekið í Katalóníu og nærliggjandi svæðum er stillt upp helgimyndum (styttum af fæðingu krists) eins og víðast hvar nema ávallt er Caganer látinn fylgja með. Caganer er klæddur hefðbundnum katalónískum klæðum með rauða húfu........................og að kúka. Þessi hefð er aldagömul og ástæður fyrir henni ekki alveg á tæru. Mögulega til þess að gefa fólki mennska tengingu við helgidóminn. Í dag þykir þetta mjög fyndið og seldar eru Caganer-styttur af alls kyns frægu fólki.........að kúka.
5. Japan
Hvað er jólalegra en bökkett af KFC með brúnni sósu og frönskum? Í um 40 ár hafa Japanir flykkst á veitingastaði ofurstans Sanders frá Kentucky á jólunum til þess að borða saman djúpsteikan kjúkling. Þessi hefð á rætur sínar í vel heppnaðri auglýsingaherferð á áttunda áratugnum sem kallaðist „Kurisumasu ni wa kentakkii!“ Panta þarf borð með margra mánaða fyrirvara og boðið er upp á sérstakan jólamatseðil, þar sem t.d. er hægt að fá kampavín. Jólin skipa ekki stóran sess í menningarlífi Japans en fara þó stækkandi.
4. Wales
Milli jóla og nýárs halda Wales-verjar upp á Mari Lwyd, gráu merina. Þá klæða þeir sig í hvítt eða grátt lak, setja á sig hauskúpu af hrossi, valsa um bæinn og syngja. Fjöldi fólks fylgir hverri meri. Þetta þykir eðlilegt. Bæði er hægt að syngja á ensku og vellsku. Þetta er fornkeltneskur siður, líklega trúarlegur, en uppruninn er svolítið í móðu. Þetta lagðist nánast af á seinustu öld en hefur verið að koma sterkt inn aftur með vaxandi þjóðarmeðvitund Wales-búa.
3. Holland
Hollendingar eiga sinn jólasvein og hann heitir Sinterklaas. Hann á þjón sem kallaður er Svarti Pétur eða Zwarte Piet. Hann er klæddur í 17. aldar föt, með krullað hár og svartur í framan. Sumir segja að hann sé Mári eða Eþíópíumaður en aðrir að hann sé svartur í framan vegna sóts úr skorsteinum sem hann fær þegar hann og jóli gefa gjafir. Hann gefur einungis þægum börnum gjafir. Óþekk börn flengir hann með kústi eða setur í poka og fer með til Spánar. Það þykir því einkar jólalegt að setja upp blackface í Hollandi þó að það sé tabú víðast hvar annars staðar.
2. Austurríki
Krampus er nokkurs konar Grýla Austurríkismanna. Nema hann er miklu hræðilegri og hann er alls ekki dauður eins og Grýla. Hann er með þykkan feld, hófa, horn og er eins og djöfull eða ófreskja í framan. Hann hræðir börn með því að klingja bjöllum og keðjum og gefur óþekkum börnum viðarspýtu í skóinn. Sagt er að hann ræni verstu börnunum, drekki þeim, étur þau eða fer með þau beina leið niður í helvíti. Þann 5. desember er haldin sérstök hátíð fyrir hann, Krampusnacht, sem minnir meira á hrekkjavökuna en jólin.
1. Katalónía
Jóladrumburinn Tio de Nadal er katalónskur siður. Fólk tekur venjulegan trédrumb og málar á hann andlit. Frá 8. desember og fram að jólum þarf að gefa honum að borða á hverjum degi og breiða yfir hann teppi svo honum verði ekki kalt. Á jóladag er drumburinn tekinn og settur hálfur í eldstæði, þar sem honum er skipað að kúka. Þetta er gert með því að lemja hann með prikum og syngja lög um drumbinn. Drumburinn kúkar svo ýmsum góðgætum eins og sælgæti, hnetum og fíkjum. Það seinasta sem hann kúkar er svo síld og laukur.
Eitt af lögunum um drumbinn:
Caga tió, kúkaðu drumbur
caga torró, kúkaðu núggati,
avellanes i mató, heslihnetum og mató-osti
si no cagues bé ef þú kúkar ekki vel
et daré un cop de bastó. þá lem ég þig með priki
caga tió! kúkaðu drumbur!