Desember er mánuður friðar og kærleika. Hann er líka sá mánuður sem fjármálageirinn gerir vanalega vel við sjálfan sig.
Nú er staðan á Íslandi fremur skökk og skrýtin. Fjármálakerfið hrundi nánast í heild sinni og ríkið þurfti að endurreisa það með handafli. Þess utan þurfti að múra upp fjármagnshöft til að koma í veg fyrir að fárveiki gjaldmiðillinn okkar dræpist alveg. Honum er haldið á lífi með inngripum í æð.
Þrátt fyrir að fjármálakerfið hafi verið endurreist með því að taka eignir úr þrotabúum fallinna banka og færa þær með handafli yfir á nýjar kennitölur, Þrátt fyrir að íslenska ríkið þyrfti að dæla vel á annað hundrað milljarða króna inn í endurreistu bankana, þrátt fyrir að nýju kennitölur þeirra séu reknar með ríkisábyrgð á innstæðum, þrátt fyrir að stóru nýju bankarnir hafi fengið sameiginlega 90 prósent plús markaðshlutdeild í vöggugjöf, þrátt fyrir þorri tekna þeirra komi af því að sýsla með, og hækka virði á, þeim eignum sem fylgdu þeim úr góðærisbönkunum og þrátt fyrir að gjaldeyrishöftin geri það að verkum að samkeppni á bankamarkaði er nánast engin þá finnst íslenskum fjármálafyrirtækjum fullt tilefni til að starfsmenn þeirra fái hærri laun, kaupauka og bónusa.
Eyðimerkurgangan búin
Starfsmenn í fjármálaþjónustu, hjá lífeyrissjóðum og í vátryggingastarfsemi hafa upplifað mest launaskrið allra eftir hrun. Laun þeirra hækkuðu um 11,2 prósent í fyrra og vísitala launa þeirra hækkaði samtals um 29 prósent á árunum 2009 til 2012. Á meðan að restin af samfélaginu var hvött til þess af stjórnvöldum að sýna samtakamátt og sætta sig við hnignandi lífskjör hækkuðu laun þessa hópa um tæpan þriðjung.
Það er svolítið eins og árið 2013 hafi loks verið árið sem fjármálageirinn taldi sig hafa gætt kurteisislegrar hófsemi nægilega lengi. Hann var búinn með sína eyðimerkurgöngu venjulegra kjara. Nú var tíminn til að slá í.
Ríkisbanki gefur völdum hópi verðmæti
Þetta byrjaði allt með því þegar starfsmenn Landsbankans fengu gefins 4,7 milljarða króna hlut í bankanum síðasta sumar. Sú gjöf var samþykkt af fyrri ríkisstjórn sem kenndi sig við vinstri. Henni fannst í fínu lagi að semja um að tveggja prósenta hlutur í ríkisbankanum rynni í vasa ríkisstarfsmanna í stað sameiginlegra sjóða. Landsbankinn er nefnilega, án nokkurs vafa, ríkisbanki. Fyrir utan þann hlut sem starfsmönnum var gefin á ríkið restina af hlutafé hans. Af mörgu gölnu sem átt hefur sér stað á Íslandi eftirhrunsáranna hlýtur þessi gjöf að vera ein sú allra galnasta.
Á sama tíma hefur Landsbankinn tekið til hliðar tæplega 50 milljónir króna til að „leiðrétta“ laun forstjóra síns afturvirkt. Hvað veldur því að hann eigi skilið að fá meira borgað en til dæmis forstjóri Íbúðalánasjóðs, sem er jafn mikill ríkisforstjóri og hinn? Hvers vegna eru ekki öll laun starfsmanna í Landsbankanum eftir BHM-taxta og hækkuð í nákvæmum takti við kjarasamninga? Hefði Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, staðið sig betur með þrjár milljónir króna á mánuði en með eina? Ef já, hvernig og af hverju?
Endurkoma kaupaukakerfa
Skömmu síðar kom fram að Íslandsbanki hefði innleitt kaupaukakerfi sem nái þó aðeins til framkvæmdastjórnar bankans. Arion banki hefur líka hlaðið í slíka innleiðingu sem nær til um hundrað starfsmanna. Kaupaukarnir geta numið 25 prósentum af árslaunum. Fyrir skemmstu kom svo í ljós að Arion banki hafði gefið öllum starfsmönnum sínum 125 þúsund krónur í bónusgreiðslu fyrir jólin. Til viðbótar fengu þeir 30 þúsund króna gjafakort sem gildir í öllum verslunum og gjafakörfu sem metin er á nokkra tugi þúsunda króna. Þetta var gert í tilefni þess að bankinn var valinn besti banki á Íslandi af erlendu tímariti sem heitir The Banker. Þess ber reyndar að geta að fjármálafagtímaritið Euromoney valdi Íslandsbanka besta banka landsins í júlí síðastliðnum. Flýtileit á netinu fann engin erlend verðlaun sem Landsbankinn hefur fengið fyrir að vera besti banki á Íslandi. Slík eru þó ekki útilokuð.
Sjóvá sem mátti ekki fara á hausinn
Rétt fyrir jól var loks greint frá því að enn eitt fjármálafyrirtækið, tryggingafélagið Sjóvá, hafi ákveðið að gera vel við starfsfólk sitt vegna góðs árangurs á árinu. Sjóvá ákvað að greiða öllum starfsmönnum sínum 400 þúsund krónur, sem eru rétt tæp meðalmánaðarlaun á Íslandi, í jólabónus. Vegna þessa er rétt að rifja aðeins upp sögu Sjóvá. Fyrrum eigendur tryggingafélagsins greiddu sér út 19,4 milljarða króna í arð á árunum 2006 til 2008 vegna þess að Sjóvá var í svo ofsalega góðum rekstri.
Síðar kom reyndar í ljós að það var rugl og uppistaðan í efnahagsreikningnum voru áhættusækin exótísk fjárfestingaverkefni sem bókfærð voru á margföldu raunvirði. Þegar ljóst var að Sjóvá myndi fara á hliðina án inngrips sagði Fjármálaeftirlitið við þáverandi fjármálaráðherra að það yrði hræðilegt ef tryggingafélag færi á höfuðið. Hann ákvað að grípa inn í og ríkið lagði 11,6 milljarða króna í Sjóvá-hítina. Eignarhluturinn sem ríkið fékk fyrir þetta var síðar seldur með fjögurra milljarða króna tapi á árunum 2011 til 2012.
Í frétt RÚV um bónusgreiðslur Sjóvá sagði markaðs- og kynningarstjóri Sjóvá að félagið hefði ráðið Íslandsbanka, áður stærsta kröfuhafa Sjóvá einn stærsta eigenda félagsins, til þess að vinna að skráningu Sjóvá á markað. Þessi vinna hafi verið svo mikil að ákveðið hefði verið að umbuna öllum starfsmönnum félagsins vegna þessa.
Kerfið er til fyrir sig sjálft, og fólkið sem því tilheyrir
Íslenskt fjármálakerfi er ekki í neinni innbyrðissamkeppni. Viðskiptabankahlutinn snýst um hefðbundin lán til heimila og þar er vaxtamunurinn ekki sjáanlega mikill. Fjárfestingabankastarfsemin snýst síðan aðallega um það að koma fyrirtækjum sem lentu í fangi bankanna í sölumeðferð eða skrá þau á markað og tryggja að bankarnir sjálfir fái að sjá um þá framkvæmd. Þá geta þeir rukkað þóknanatekjur sem sýna bætingu á undirliggjandi rekstri, og réttlætir þar af leiðandi kaupauka og/eða bónusa.
Það er heldur ekki í neinni alþjóðlegri samkeppni um starfsfólk, líkt og oft er haldið fram. Í fyrsta lagi er engin sérstök eftirspurn eftir íslenskum bankasnillingum eftir að síðasta kynslóð þeirra tapaði nokkur þúsund milljörðum króna af peningum erlendra banka og fjárfesta í 2007-útrásinni. Í öðru lagi borga íslensku fjármálafyrirtækin, líkt og önnur innan hafta, starfsfólki sínu í krónum. Krónulaunin geta aldrei keppt við laun í eðlilegum gjaldmiðlum. Í þriðja lagi eru íslensku bankarnir einfaldlega ekki þátttakendur á alþjóðlegum bankamarkaði.
Maður fær stundum á tilfinninguna að þeir sem starfa í fjármálageiranum hafi fundið glufu sem gerir þeim kleift að vinna þægilega innivinnu í upphituðum rýmum með miklu hærri laun en allir hinir. Að þetta sé mjög klárt fólk sem finnist betra að vera ekki að hafa neitt of mikið fyrir hlutunum án þess að það komi í veg fyrir að þau lifi meira þægindalífi en flestir samborgarar þeirra. Þess vegna er búið til kerfi þar sem þetta fólk fær óeðlilega borgað fyrir að stunda umsýslu með peninga. Kerfi sem er fyrst og síðast til fyrir sig sjálft og fólkið sem innan þess starfar. Klára fólkið sem á skilið að hafa það betra en hinir. Og annað slagið, þegar þessi tálsýn hrynur, þá borgum við hin til að reisa hana aftur við.
Gleðilega hátíð.