Það er klassískt fermingaveislurifrildi að takast á um hver sé valdamesti maður landsins. Sumum finnst blasa við að ríkisstjórnarleiðtogarnir tveir hljóti að eiga þann titil skuldlaust. Aðrir benda á að forseti landsins hafi búið til embætti sem tróni yfir öðrum. Einhverjir benda á að ritstjórinn í Hádegismóum hljóti að hafa meiri áhrif en allir aðrir þar sem formlegir valdamenn hoppi þegar hann segir þeim að hoppa.
Allir þessir aðilar eru þó í þeirri stöðu að vald þeirra er bundið ákveðnum takmörkunum. Ríkisstjórn stýrir ramma samfélagsins en er oft ráðalaus gagnvart því sem gerist innan hans. Ólafur Ragnar er bundinn því að fólk geri sér ekki grein fyrir að völd hans eru ekki formleg heldur sjálftekin og að hann hefur til að mynda ekkert umboð til að reka sjálfstæða utanríkisstefnu. Davíð treystir á að ráðamenn og almenningur sé enn skíthræddur við hann og þori ekki öðru en að hlýða hinu reiða valdboði hans.
Þrátt fyrir digurbarklegt tal um kylfur, gulrætur og allskyns önnur barefli og grænmeti þá er líklega engin þessara aðila þess megnugur að valda þessum titli. Sá sem er valdamesti maður á Íslandi er kafbátur sem lætur svo lítið fyrir sér fara á opinberum vettvangi að það er ekki einu sinni hægt að myndagúggla manninn. Hann heitir Jeremy Clement Lowe, er tæplega fertugur Breti, og stýrir stærsta kröfuhafa Íslands, írska skúffufyrirtækinu Burlington Loan Management.
„Herra Ísland“
Lowe er kallaður „Herra Ísland“ í kröfuhafaiðnaðinum, sem samanstendur annars vegar af útlendingum sem fara með hagsmuni kröfuhafa fallinna banka og hins vegar af íslenskum þjónustuiðnaði lögmanna, bankamanna, endurskoðenda og almannatengslagúrúa sem mokgræða á því að þjónusta útlendingana. Ástæða þess að Lowe fékk þetta viðurnefni er ekki vegna þess að hann hafi unnið fegurðasamkeppni eða kraftakarlamót. Það er vegna þess að hann virðist vera alstaðar á landinu. Ísland var líka fyrsta verkefnið sem Lowe réðst í fyrir sjóðinn eftir að hann réð sig þangað í kringum hrunið. Hann hafði áður starfað lengi hjá endurskoðunarrisanum KPMG.
Burlington-sjóðurinn er fjármagnaður af Davidson Kempner European Partners í London, sem er dótturfélag bandaríska sjóðstýringarfyrirtækisins Davidson Kempner, þrettánda stærsta vogunarsjóðs Bandaríkjanna. Sjóðir fyrirtækisins eru með um 70 prósent af landsframleiðslu Íslands í stýringu. Burlington er langstærsti kröfuhafi þrotabús Glitnis, á meðal stærstu kröfuhafa í bú Kaupþings, á umtalsverðar kröfur í bú Landsbankans, er á meðal eigenda Straums fjárfestingabanka, á stóran eignarhlut, bæði beint og óbeint, í Klakka (áður Exista) sem á fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu og stóran hlut í tryggingarisanum VÍS, hefur verið að kaupa hluti í Bakkavör af miklum móð og keypti 26 milljarða króna skuldir Lýsingar skömmu fyrir síðustu áramót.
Varlega áætlað er ljóst að virði eigna Burlington á Íslandi, sem Lowe stýrir, er að minnsta kosti vel á þriðja hundrað milljarðar króna. Það er því ljóst að áhrif Lowe á það hvernig kröfuhafar munu takast á við tillögur ríkisstjórnarinnar um afnám hafta verða töluverð. Hann situr til dæmis í sex manna nefnd sem falið var að mynda nýja stjórn Glitnis ef hugmyndir um nauðasamning bankans gengu eftir og kröfuhafar tækju hann yfir. Hann er þar eini fulltrúi sérstaks vogunarsjóðs.
Einn með heildarmyndina
Kröfuhafarnir sem reyna nú sitt besta að hámarka arð sinn af íslensku veseni eru að mestu frekar samstilltur hópur. Fámennur hópur erlenda lögmanna og ráðgjafa fara með flest þeirra mál í sameiningu. Lowe sker sig út úr þeim hópi. Hann er mun virkari þátttakandi í því sem sjóðurinn hans er að gera hérlendis og fjárfestingar hans eru mun víðtækari en annarra. Lowe passar sig líka á því að dreifa verkefnum á milli innlendra aðila. Hann notast við þjónustu að minnsta kosti þriggja fjármálafyrirtækja og nokkurra mismunandi lögmannstofna. Lowe er heldur ekki með íslenska ráðgjafa á hverju snæri eins og sumir kröfuhafar. Þessi taktík gerir það að verkum að enginn hefur heildarmynd af því sem Lowe og Burlington eru að gera hér á Íslandi nema hann sjálfur.
Goldman Sachs í skugganum
Lowe hefur verið á landinu undanfarið. Með í för hafa verið ráðgjafar frá fjárfestingabankarisanum Goldman Sachs, sem er sagður vera mjög mikill áhrifavaldur á þá taktík sem bandarískir áhættufjárfestar hafa leikið hérlendis eftir hrun. Ástæða þess að hópurinn er hérlendis var meðal annars fundur tveggja fulltrúa ríkisstjórnarinnar, þeirra Benedikts Gíslasonar og Tómasar Brynjólfssonar, með fulltrúum kröfuhafa á Hótel Nordica síðastliðinn mánudag. Þar kynntu mennirnir tveir stöðumat stjórnvalda en leyfðu hvorki spurningar né mættu með fulltrúa Seðlabankans með á fundinn. Þetta fór mjög illa í hákarlanna sem sátu fundinn. Þeir sögðu stöðumatið hafa byggt á gömlum upplýsingum sem þegar höfðu legið fyrir og fundurinn hafi því verið vitagagnslaus.
Það er ljóst af samtölum við fólk innan „kröfuhafaiðnaðarins“ að Lowe situr ekki með hendur í skauti. Eftir að síðasta gjaldeyrisútboði Seðlabankans lauk án þess að nokkru tilboði hafi verið tekið fóru af stað kenningar um að kröfuhafar hefðu rottað sig saman um að stöðva útboðin á meðan að nauðasamningar föllnu bankanna væru ófrágengnir. Fundurinn á mánudag hafi verið sem olía á pirringseld kröfuhafanna.
Vandamálið við samsæriskenninguna er sú að eigendur kvikra krónueigna, sem hægt er að losa í gegnum útboðin, eru ekki sami hópur og á kröfur á bankana. Þvert á móti er sá ógagnsæi hópur sem á þessar kviku krónueignir talin mjög fámennur og að hluta til samansettur af Íslendingum. Ómögulegt virðist hins vegar að nálgast upplýsingar um hverjir þeir séu, þótt óstaðfestar ábendingar séu sannarlega margar.
Stattu upp Jeremy Lowe
Sá eini sem er sagður kannski vera með hagsmuni í báðum hópum, í kröfuhafahópi bankanna og á meðal eigenda kviku krónanna, er títtnefndur Jeremy Lowe. Þar sem hann sigli alltaf undir radarnum, dreifi kröftum starfsemi sinnar á svo marga þjónustuaðila og forðist sviðsljósið eins og heitan eldinn er hins vegar ómögulegt að staðfesta slíkt.
Ég hef ítrekað reynt að ná tali af Jeremy Lowe á undanförnum árum, bæði eftir formlegum og óformlegum leiðum, án árangurs. Sem blaðamanni finnst mér eðlilegt að maður sem hefur jafn mikil áhrif á hvernig samfélagið sem ég bý í verður í framtíðinni stingi höfðinu upp úr sandinum og sýni á spilin. Innan fjármálageirans er slík krafa talin fjarstæðukennd. Það kemur engum við hvernig menn græða pening. Þegar áhrif þess ágóða, sem er þegar orðinn stjarnfræðilegur, munu vera jafn stórtæk og raun ber vitni þá get ég ekki verið sammála. Enginn einn erlendur aðili á jafn stóra eignarhluti í íslenskum þjónustufyrirtækjum, á jafn mikið af kröfum á íslensk fjármálafyrirtæki og á jafn mikið undir við afnám hafta og Burlington Loan Management. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að gera kröfu um að Jeremy Lowe, valdamesti maður landsins, standi upp og geri grein fyrir sjálfum sér, stefnu sinni og sínum verkum. Þeirri ósk er hér með komið á framfæri.