Frirsögnin átti að vera: Takk, Gunnar Bragi. Ég er þakklát utanríkisráðherra okkar Íslendinga fyrir að fordæma hrikalegar árásir Ísraelsmanna í Palestínu, þar sem svo mörg börn hafa dáið að sumir eru farnir að tala um barnastríð. Margir utanríkisráðherrar þora því ekki og ég er stolt af honum fyrir vikið, ég vona bara að hann eigi eftir að gera allt sem í valdi hans stendur til að mótmæla þessum ódæðisverkum, líka ef sýnt þykir að slit á stjórnmálasambandi við Ísrael þjóni sínum tilgangi.
Ég er líka þakklát honum fyrir að fordæma árásina á farþegaþotuna frá malasíska flugfélaginu, þar sem fjölmörg börn létust einnig – og líkur benda til að aðskilnaðarsinnar í Úkraínu beri ábyrð á og það á vakt Pútíns. Ég, líkt og svo margir aðrir, er full vanmáttar gagnvart þessum hræðilegu ofbeldisverkum og því er gott að vita til þess að talsmaður þjóðarinnar tali máli manns í þeim efnum. En pistlahöfundur Kjarnans í síðustu viku, Hrafn Jónsson, varð fyrri til að gauka góðu að Gunnari Braga í niðurlagi pistils svo ég þurfti að leita annarra fanga. Kannski hefði ég átt að skrifa um þessi óskiljanlegu fjöldamorð en ef satt skal segja skortir mig nógsamlega sterk orð. Það eina sem ég get sagt er að ég skil ekki af hverju þessir menn fremja ekki sjálfsmorð frekar en að myrða börn.
Úr einu í annað
Í öðrum eins tíðaranda leitar orðið ofbeldismenning á mig. Orð sem leiðir hugann að því að dóttir mannsins míns er þessa dagana að skipuleggja Druslugönguna ásamt fleirum.
Það er væntanlega ganga gegn ofbeldismenningu, hugsaði ég þegar ég hringdi í Sölku, eins og hún er kölluð.
Mig langaði að fræðast um Druslugönguna því ég er alin upp við setningar á borð við: Þú ferð ekki svona klædd út nema þú viljir endilega láta nauðga þér! Nokkuð sem skýrir kannski áráttu mína til að klæðast hólkvíðum lopapeysum.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_24/41[/embed]
Pistill verður að viðtali
Fyrsta spurningin hljóðar skringilega: Ég er 41 árs móðir, af hverju hef ég aldrei farið í Druslugönguna?
SALKA: Druslugangan er auðvitað ný af nálinni, ekki nema fjögurra ára gömul og hópur þeirra sem mæta í hana fer sífellt stækkandi. Fólk verður sífellt meðvitaðra um mikilvægi hennar, enda tilheyra þolendur kynferðisbrota ekki einum þjóðfélags- eða aldurshópi.
Gangan snýst um viðhorfsbreytingu í samfélaginu svo skömmin verði gerandans, ekki þolandans. Vonandi verður hún til þess að fleiri hugsi sig tvisvar um áður en þeir spyrja í hverju konan hafi verið þegar henni var nauðgað eða efist um að hægt sé að nauðga strákum – en átján prósent þeirra sem leituðu til Stígamóta í fyrra voru karlmenn.
Lopapeysukonan í Gonzóham
Ef kona myndi spásséra um á bikinístreng innan um fullar fótboltabullur væru þá ekki töluverðar líkur á að það yrði ráðist á hana, svipað og ef hún myndi laumast inn í tígrisdýragryfju?
SALKA: Vonandi myndu konan í bikinístrengnum og fótboltabullurnar bara rabba um fótbolta. Fótboltaáhugamenn eru, held ég, ekkert líklegri til að nauðga en golfáhugamenn. Höfuðmunurinn á tígrisdýri og nauðgara er þó að tígrisdýrið sinnir grunnþörfum sínum meðan nauðgarinn sýnir af sér grimmd. Konur eru þess utan ekki mýs og fótboltabullur ekki rándýr.
Eru ranghugmyndir um að nauðgun geti átt sér réttlætanlegar skýringar algengar?
SALKA: Þær gegnumsýra samfélagið og þrífast meira að segja í réttarkerfinu þar sem dómar í kynferðisbrotamálum hljóma oft eins og verið sé að rétta yfir þolandanum en ekki gerandanum. Í dómum kemur endurtekið fram hvert ástand þolanda var. Þá vinnur ölvun gegn þolanda meðan ölvaður gerandi er jafnvel sýknaður vegna þess að hann hafði mögulega ekki stjórn á gjörðum sínum.
Sú ranghugmynd er líka ráðandi að þeir sem kæri nauðgun geri það að gamni sínu. Að kæra nauðgun er erfitt ferli sem krefst endurtekinna skýrslutaka og óþægilegra læknisskoðana. Margir virðast halda að önnur hver manneskja sem kæri nauðgun geri það af annarlegum ástæðum en tíðni upploginna saka í þessum málum er 2-9%, jafnhá og í öðrum brotaflokkum.
Önnur ranghugmynd er líka sú að körlum sé ekki nauðgað, sem hefur þau áhrif að karlar leita síður réttar síns þegar þeim er nauðgað.
Gæti ég, fjörutíu og eins árs móðir, rithöfundur og femínisti, verið með svona ranghugmyndir?
SALKA: Ég held að allir hafi á einhverjum tímapunkti verið með ranghugmyndir. Það fylgir því að búa í samfélagi þar sem bíómyndir, auglýsingar og orðræða lita hugsun okkar.
Einu sinni átti ég vin sem reyndist vera nauðgari, og ég man svo vel eftir þegar ég heyrði fyrst út undan mér að hann hefði nauðgað stelpu. Stelpan var ekki vinkona mín svo fyrsta hugsun mín var: Er það ekki bara eitthvað slúður? Er hún ekki bara að ljúga? Því ég vonaði að það væri ekki satt að ég hefði verið svo vitlaus að eiga vin sem væri nauðgari. Ég skammast mín mikið fyrir að hafa ætlað að sópa því undir teppið því mér fannst málið óþægilegt, en það er líka mikilvægt að viðurkenna eigin breyskleika og takast á við þá. Ég held að í litlu samfélagi eins og okkar sé mjög algengt að fólk vilji ekki trúa því að einhver sem það þekki hafi nauðgað. En það er ekki á okkar ábyrgð hvað aðrir gera, bara hvað við gerum og hvernig við tökum á því.
Er eitthvað til sem heitir að taka ábyrgð á klæðnaði og útliti sínu til að það verði ekki ráðist á mann?
SALKA: Oft þegar fólki er ráðlagt að klæða sig og hegða sér einhvern veginn á djamminu er það gert af góðvild. En um leið og fólk lætur óttann við yfirvofandi ofbeldi ráða er það á villigötum. Höldum við virkilega að manneskja sé öruggari í síðkjól en skokki? Við þurfum líka að uppræta mýtuna um ókunnuga nauðgarann í húsasundinu. Í flestum tilfellum er gerandinn einhver sem þolandinn þekkir en ekki fnæsandi naut sem ræðst fyrirvaralaust á þig. Gerandinn þarf að sleppa því að nauðga en ekki þolandinn að klæða sig betur.
Hafa einhverjir gagnrýnt Druslugönguna?
SALKA: Margir fara í vörn þegar kynferðisbrotamál ber á góma. Gangan er alþjóðleg og byrjaði í Kanada þegar lögreglumaður lét þau ummæli falla að stelpur ættu að forðast að klæða sig eins og druslur ef þær vildu ekki láta nauðga sér. Í framhaldi af því héldu femínistar þar í landi fyrstu Slutwalk-gönguna og klæddu sig eins og druslur til að undirstrika að klæðnaður þeirra byði ekki upp á ofbeldi. Gangan hefur stundum verið gagnrýnd á þeim forsendum að hún sé athyglissýki í stelpum sem langi að vera berar að ofan en það er alls ekki markmið göngunnar. Fólk má mæta bert að ofan, í búrkum eða snjógalla í gönguna. Það sameinast um að nauðgun er aldrei réttlætanleg.
Raunar er algengt að þolendur tilkynni ekki nauðgun út af sjálfsásökun. Skömm og sjálfsásökun er algengasta ástæða þess að þolendur kæra ekki, samkvæmt upplýsingum frá Stígamótum. Druslugangan er vettvangur fyrir aðstandendur þolenda að sýna þeim stuðning og fyrir þolendur að skila skömminni þangað sem hún á heima.
Geta yfirvöld lært eitthvað af boðskapi Druslugöngunnar?
SALKA: Það er mikilvægt að breyta réttarkerfinu í kynferðisbrotamálum, nú er það meingallað. 70% nauðgunarkæra eru felldar niður áður en þær komast fyrir dóm. Í 13% málanna er svo sakfellt. Dómarar fella niður meirihluta ákæra vegna ófullnægjandi sönnungargagna, telja þá áverka þolenda vera af sökum langvarandi og harkalegs kynlífs – en það er nefnt í meirihluta skýringa á niðufellingu ákæra. Þolandi þarf helst að sýna myndbandsupptöku og skriflega játningu gerandans og því leggja margir þolendur ekki í að kæra. Ég skora á yfirvöld að breyta þessu niðurbrjótandi kerfi.
Ég tek undir þessi lokaorð dóttur mannsins míns, þakklát henni fyrir að upplýsa fólk eins og mig – og þig. Þakklát fólki sem stuðlar að betri heimi þegar ofbeldið virðist ætla að tröllríða öllu.