... En því miður ... Þessi orð hljóma eins og eitur í eyrum rithöfundar sem hlustar á gagnrýnanda fjalla um verk sem hann hefur lagt allt sitt í árum saman. Það er búið að kynna verkið, jafnvel gauka hrósi að höfundi fyrir að takast á við frumlegar hugmyndir, en svo kemur höggið:
... En því miður fipast höfundi þegar ...
Þar með rænir gagnrýnandinn jólunum af höfundi að hætti Trölla. Pyntingin hefst þegar gagnrýnandinn telur upp hin ýmsu atriði sem höfundur hefði hugsanlega getað gert betur til að áhugaverður efniviður hefði fengið að njóta sín í góðu verki. Það er að segja að mati þessa tiltekna gagnrýnanda því stundum eru gagnrýnendur ósammála, einn hælir því sem öðrum þykir lélegt – og öfugt.
Sitt sýnist hverjum
Rithöfundur sem óttast gagnrýnendur verður ekki langlífur í starfi. Því við lendum öll í þessu, við sem skrifum. Að sitja við útvarpstækið, sjónvarpstækið eða tölvuskjáinn og verða vitni að, ásamt þúsundum annarra, hvernig gagnrýnandinn malar um allt sem við hefðum getað gert öðruvísi.
Arnaldur Indriðason hefur lent í þessu, líka Halldór Laxness, Sjón og Zadie Smith. Já, talandi um Zadie, ég hef sjaldan séð eins ísmeygilega slæman dóm og þann sem ég rakst á í Guardian um bókina hennar NW – sem fjölmargir aðrir gagnrýnendur höfðu keppst við að lofa sem meistaraverk. Stundum er meira að segja hressandi að lesa vonda gagnrýni þegar óteljandi gagnrýnendur hafa alhæft að höfundurinn sé endurfæddur Dickens í kvenmannslíki. Sama þótt maður finni til með höfundi, enda töluvert fleiri sem lesa Guardian en horfa á Kiljuna. Ónefnd íslensk skáldkona á aldur við Zadie fékk reyndar stórgóðan dóm í Guardian fyrir nýlega skáldsögu sem fékk á sínum tíma vondan dóm í Tímariti Máls og menningar. Sitt sýnist hverjum og það verður maður að hafa í huga þegar ritdómar eru annars vegar. Það er jú frjáls umræða sem blívur.
Þegar ég hugsa út í það þá held ég reyndar að ég hafi aldrei gefið út bók sem hefur ekki bæði fengið lof og last. Alveg sama hversu vel bókin gengur þá er alltaf einhver einhvers staðar sem getur fundið eitthvað að henni. Stundum er bók hampað á Íslandi en ekki í öðru landi eða stjörnum hlaðin í Danmörku eða Þýskalandi en síður á Íslandi. Á hinu fjölmenna þýskumælandi svæði eru dómar raunar oft afar ólíkir í ólíkum málgögnum. Ég hef líka heyrt að oft gangi illa að markaðssetja bækur sem ganga vel í suður-Evrópu norðar í álfunni og öfugt.
Frelsi fylgir ábyrgð
Við höfum ólíkar hugmyndir um tilbrigðin við uppskriftina að HINNI RÉTT SKRIFUÐU SKÁLDSÖGU. Þess utan verða rithöfundar líka að fá að vera mistækir. Aðeins þannig geta þeir fiktað, leitað og prófað nýja hluti. Allt þetta sem skriftir ganga út á. Á móti kemur að gagnrýnendur verða líka að fá að skrifa allt sem þeir vilja skrifa. Þeir verða meira að segja að hafa leyfi til að vera mistækir, jafnvel þó að störf þeirra geti bitnað á lífsviðurværi höfundarins. Að sama skapi þurfa þeir að umgangast frelsið af ábyrgð.
Ég var til dæmis ósátt um árið þegar höfundur, sem ég hafði fengið spurnir af að hefði kvartað undan því að það væri of mikið mokað undir rassinn á mér hjá forlaginu sem við gáfum út hjá, var skyndilega mættur í einn áhrifamesta fjölmiðil landsins til að dæma bók eftir mig. Mestu viskubrunnar breytast í Framsókn í framboði í jólabókaflóðinu (ég sjálf þar með talin).
Höfundar tuða yfir athyglinni sem vinirnir fá, enda stendur allt og fellur með gengi bókanna. Ári seinna er framboðsruglið gleymt og grafið og hver getur neitað aukapeningum fyrir jólin þegar það vantar gagnrýnanda úr höfundastétt. Ég hefði vel getað verið þessi gagnrýnandi og hver veit nema ég hafi verið það, á einn hátt eða annan, því það er óþægilega auðvelt að rugla saman hagsmunum í fámenninu á Íslandi.
Gagnrýnendaskólinn
Auðvitað er potið í gagnrýnendum sárt, á þann hátt að eitt augnablik langar mann til að deyja af blygðun. Síðan rofar til og höfundurinn (allavega ég) íhugar hvað sé hæft í orðum gagnrýnandans. Stundum hefur gagnrýnandinn bent á veigamikil atriði sem hefði réttilega mátt taka til íhugunar og má læra af en stundum er hann einungis að varpa upp möguleikum sem höfundur og yfirlesarar hans ræddu ítarlega á einhverjum tímapunkti þannig að höfundurinn ákvað að fara þessa leið því sú sem gagnrýnandinn hefði viljað fara var við nánari umhugsun ekki rétt, í ljósi lögmála verksins.
Mér finnst ég hafa lært ýmislegt af gagnrýnendum í gegnum árin, rétt eins og yfirlesurum. Sennilega af því að ég var óskólagengin þegar ég byrjaði að gefa út skáldsögur, þá var ekki hægt að mennta sig í skapandi skrifum, eini skólinn var djúpa laugin: Að gefa út bók og fá gagnrýnendur yfir sig, eins og gráðugt hrafnager.
Mér finnst gaman að lesa bókadóma, bæði um bækurnar mínar og bækur annarra höfunda, og þá les ég bæði dóma í íslenskum og útlenskum fjölmiðlum. Og ég held raunar, án þess að hafa vísindalega könnun í höndunum, að dómar í sumum útlenskum fjölmiðlum séu oft bæði kaldranalegri og skáldlegri en tíðkast á Íslandi. Gagnrýnendurnir hafa víða frelsi til að ... hvað á maður að segja, leyfa persónuleika sínum að fljóta inn í dóminn með allskonar hálærðum fimmaurabröndurum, spekúlasjónum og skáldlegum fimleikum. Og það er gaman að því. Svo lengi sem maður er að lesa um einhvern annan en sjálfan sig eða þá að dómurinn sé jákvæður í öllum sínum skáldskap.
Það sem ég vildi sagt hafa
Fyrir nokkrum dögum síðan stóð ég mig að því að vera í hópi höfunda sem kölluðu bókadómara í Víðsjá ýmsum barnalegum uppnefnum vegna tveggja dóma um bækur sem einhverjum okkar þóttu hljóma óþarflega nastí. Okkur sárnaði fyrir hönd vina okkar, kannski eins og Sigmundi Davíð sárnar fyrir hönd Hönnu Birnu en kannski líka af því að við spegluðum okkur í þeim.
Í framboðsslag jólabókaflóðsins er sárasjaldgæft að höfundur hendi sér í eldlínuna til að verja aðra en sjálfan sig og sína bók. En að þessu sinni fannst ýmsum það m.a. vera vanhugsað uppátæki hjá reyndum gagnrýnanda að blanda sambandi, eða réttara sagt nýlegum sambandsslitum, tveggja höfunda í litlu Reykjavík inn í dóm um bók annars þeirra. Þessi tiltekni gagnrýnandi er jú hámenntaður maður, einn af fáum gagnrýnendum á Íslandi sem hefur fyrir því að krydda dómana sína með skemmtilega skáldlegum tilþrifum, svo okkur fannst sumum að hann ætti að vita betur. Svo má auðvitað deila um réttmæti þess að blanda einkalífi höfundar á þennan hátt inn í gagnrýni. Mat fólks á því er ólíkt.
Gagnrýnendur snúa bökum saman, í kunnuglegum söng um frelsi gagnrýnandans, þegar þeir eru gagnrýndir. Og auðvitað eiga þeir að hafa frelsi til að skrifa allt sem þá lystir, en eins og áður sagði þá fylgir frelsinu ábyrgð. Heljarinnar ábyrgð í svona fámennu samfélagi eins og því íslenska þar sem allir þekkja alla og hagsmunatengslin liggja víða.
Þegar ég eyði Jakobi Bjarnari
Það er auðvelt að söngla gamlan söng um að höfundar verði að þola gagnrýni, en ég veit ekki betur en að höfundar á Íslandi þoli hana býsna vel. Annars væru flestir bara hættir að skrifa því það verður alltaf töff að fá vondan dóm, sama þótt fræðingarnir segi að þeir hafi almennt mildast með árunum. Samfélagið hefur jú mildast að svo mörgu leyti, við erum til dæmis hætt að senda ómálga börn í sveit og aflífa dýr með því að skjóta þau. Og ritdómarar eru hættir að fjargviðrast yfir meintu tilberasmjöri en nota þá kannski ísmeygilegra orðalag. Höfundar vita að það er eins og að dansa í kviksyndi að deila við dómarann sem hefur alltaf síðasta orðið, varinn prinsippum og hefðum.
Að þessu mæltu vil ég þó nota þennan ágæta vettvang til að biðja umræddan ritdómara afsökunar. Því ég átti að vita betur, miklu betur, en að kenna hann við sadómasókískar tilhneigingar á spjallvef á Facebook – sem ég álpaðist reyndar eina ferðina enn til að finnast vera álíka prívat og eldhúskrókurinn fyrir nokkrum árum þar sem fólk býsnaðist gráglettið yfir upphrópunum Kollu Bergþórs (sú hefur nú aldeilis fengið hressilegar gusur við hin ýmsu eldhúsborð rithöfunda landsins þó að flestum þyki vænt um hana) eða unglingum að skrifa um bækur á dagblöðunum, öllu því sem enginn fékk nokkru sinni að vita um því stundum er svo nauðsynlegt að pústa og peppa í þessum jólaslag. En næst þegar ég pústa og peppa og hrauna yfir gagnrýnendur í góðra vina hópi ætla ég halda mig við eldhúskrókinn. Eða að minnsta kosti eyða Jakobi Bjarnari Grétarssyni af vinalistanum á Facebook svo að væl í nokkrum vinum á síðkvöldi verði ekki að algildum sannleika í fjölmiðlum landsins daginn eftir (tek þó fram að mér finnst gaman að rabba við Jakob Bjarnar á förnum vegi).
Og þá sjálf afsökunarbeiðnin
Ég gerði mig seka um að hjóla í manninn en ekki málefnið. Nokkuð sem ég hef sjálf ítrekað ásakað stjórnmálamenn fyrir að gera, einmitt hér í Kjarnanum, og það í hæðnistón. Framsóknarmaðurinn braust fram í mér með þessum afleiðingum. Núna langar mig að finna Angelu Merkel í mér, diplómatíska, dula en fylgna sér, og segja: Ég biðst afsökunar, virðulegi ritdómari í Víðsjá, ég fésaði á mig á Facebook og það ekki í fyrsta sinn.
Já, og gleðileg jólabókaflóð, rithöfundar, ritdómarar og þið öll sem nennið að lesa bækur. Og rífast um þær.