Geimvísindamenn evrópsku geimferðastofnunarinnar (ESA) hafa gefið út hljóðbrot sem Rósetta, gervitunglið sem nú hringsólar um halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko, hefur numið með fjölbreyttum mælitækjum sínum. Halastjarnan virðist, af upptökunni að dæma, gefa frá sér furðuleg hljóð sem við hér á Jörðu gætum kallað söng.
Frá þessu er greint á bloggsíðu rannsóknarmannana hjá ESA. Rósetta er búin fimm mælitækjum sem eiga að mæla rafgasið umhverfis halastjörnunnar. Mælitækin eiga að rannsaka ýmsa þætti sem hugsanlega hafa áhrif á halastjörnuna, til dæmis sólgos, endalaust streymi rafgass frá sólinni, breytingar á hegðun halastjörnunnar með tíð og tíma og fleira.
Þegar vísindamennirnir fóru yfir gögnin sem Rósetta hefur þegar sent til Jarðar urðu þeir hissa því svo virðist sem að Churyumov-Gerasimenko „syngi“. Rafsegulsbylgjurnar umhverfis halastjörnuna mynda þennan sérstaka söng. Á hljóðbrotinu hér að ofan má hlusta á söng halastjörnu, en hljóðstyrkurinn hefur verið tíuþúsundfaldaður úr 40-50 millihertzum svo mannseyrað geti numið hljóðið.
Söngurinn greindist fyrst í ágúst þegar Rósetta var komin inn fyrir 100 kílómetra radíus frá Churyumov-Gerasimenko. Vísindamenn telja sönginn stafa af háttalagi halastjörnunnar og því að hún virðist losa hlutlausar öreindir út í geiminn þar sem þær jónast. Enn er þó á huldu hvað veldur bylgjunum.
Fjallað var ítarlega um Rósettu og halastjörnukannan Philae í Þætti um kúl hluti á þriðjudag. Hægt er að hlusta á þáttinn í Hlaðvarpi Kjarnans.