Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir og blaðamaðurinn Bára Huld Beck fjalla um tyrkneska rithöfundinn Hakan Günday og bókina Meira í nýjum hlaðvarpsþætti sem sérstaklega er tileinkaður Bókmenntahátíð Reykjavíkur en Günday verður gestur á hátíðinni sem haldin verður dagana 24. til 27. apríl næstkomandi.
Til þess að ræða þennan merkilega höfund fengu þær til sín góðan gest, Friðrik Rafnsson, sem er þýðandi bókarinnar. Þau fóru á djúpið í vangaveltum sínum um þessa hrikalegu en mögnuðu bók og fjalla meðal annars um af hverju umfjöllunarefnið eigi sérstakt erindi nú á dögum. Og hvernig þessi heimur smyglarabarnsins, sem virðist svo fjarri okkur, er í raun hluti af veruleika okkar.
Tyrkneski drengurinn Gaza býr við Eyjahafið. Níu ára gamall er hann farinn að aðstoða föður sinn við mansal, að smygla ólöglegum innflytjendum, með því að gefa þeim mat og skjól áður en þeir freista þess að komast yfir til Grikklands. En eina nóttina breytist allt. Skyndilega er Gaza neyddur til að horfast í augu við hvernig hann ætli sjálfur að komast af.
Á bókakápunni segir að Meira sé áhrifamikil og tímabær bók um það hvernig stríð, ofbeldi og fólksflutningar hafi áhrif á daglegt líf fólks – og einmitt um það er fjallað í hlaðvarpsþætti dagsins.