Hvað gerist þegar ísbirna skrifar sjálfsævisögu sína? Orðin verða göldrótt. Eins og bókin Etýður í snjó. Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir og blaðamaðurinn Bára Huld Beck ræddu þessa göldróttu bók við þýðanda hennar, Elísu Björgu Þorsteinsdóttur, og fóru á flug. Þær náðu þó ekki að segja nærri allt því svo margt má segja um þessa bók.
Þetta er annar þáttur þar sem þáttastjórnendur fá til sín góðan gest til að ræða höfunda og verk þeirra sem koma á Bókmenntahátíð Reykjavíkur sem haldin verður dagana 24. til 27. apríl næstkomandi.
Höfundur Etýður í snjó, Yoko Tawada, verður gestur á hátíðinni en hún er fyrir margt merkilegur höfundur. Hún fæddist árið 1960 í Japan og gaf út sitt fyrsta verk árið 1987. Hún lagði stund á rússnesku og rússneskar bókmenntir í Waseda-háskóla en eftir það fór hún til Þýskalands þar sem hún lærði þýskar samtímabókmenntir við Háskólann í Hamborg og kláraði doktorspróf frá Háskólanum í Zurich. Tawada býr og starfar í Þýskalandi og skrifar bæði á þýsku og japönsku. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir bækur sínar.
Auður Jónsdóttir les kafla upp úr Etýður í snjó í lok þáttar.