Reykjavíkurstjórnin, sem virðist vera í kortunum, þarf að treysta á að Samfykingin nái inn á þing, sem er alls ekkert víst. Þess vegna veltur tilverugrundvöllur hennar á því hvort að Samfylkingin fái bara mjög vonda kosningu, í stað þess að fá skelfilega. Miðað við Kosningaspá Kjarnans eru einungis 13 prósent líkur á að formaður flokksins nái inn á þing og flestir oddvita hans eru í mjög tæpri stöðu. Og getur flokkur sem nær formanni sínum ekki inn á þing sest í ríkisstjórn með góðri samvisku? Geta aðrir stjórnmálaflokkar í slíkri veitt því brautargengi?
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist svo lágt að annað hvort Vinstri græna eða Pírata virðist þurfa í samsteypustjórn hans til að Sjálfstæðisflokkurinn eigi möguleika á að haldast við kjötkatlana. Slíkt myndu sumir kalla „pólitískan ómöguleika“. Og hver verða áhrif verstu kosninga í sögu Sjálfstæðisflokksins og eyðimerkurgöngu utan ríkisstjórnar á stöðu Bjarna Benediktssonar sem formanns?
Framsóknarflokkurinn hefur sett fram óskiljanlega stefnuskrá sem virðist hafa verið soðin saman á örfáum dögum eftir flokksþingið og ekki í anda þeirra ályktanna sem þarf voru samþykktar. Forsvarsmenn flokksins eiga enda í stökustu vandræðum með að útskýra loforðin fyrir kjósendum á vitrænan hátt.
Svo er auðvitað hræðsluáróðurinn á yfirsnúningi þar sem veruleikanum er stillt upp svona: Viltu ríkisstjórn sem breytir landinu í Venesúela eða viltu hægri stjórn sem keyrir aðallega á rússneskri spillingu?
Þetta er á meðal þess sem farið er yfir í síðustu Kviku fyrir kosningar með Þórunni Elísabetu Bogadóttur, aðstoðarritstjóra Kjarnans, og Þórði Snæ Júlíussyni, ritstjóri hans.