Radíó Efling er þáttur um félagsfólk Eflingar og allt sem viðkemur þeim. Undanfarin ár hefur fólk í Eflingu sagt frá lífi á lægstu launum, farið í verkföll og haldið uppi grunnþjónustu í heimsfaraldri. Í þessum þáttum verður rætt við félaga í Eflingu og ýmsa fulltrúa og fagfólk um hag verkafólks á Íslandi, sögur þeirra og líf í og utan vinnu. Þórunn Hafstað og Benjamín Julian, starfsmenn Eflingar – stéttarfélags, sjá um þáttinn.
Í fyrsta þættinum er rætt við Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, Þorbjörn Guðmundsson og Stefán Ólafsson. Samkvæmt nýútkominni skýrslu frá Eflingu eru skerðingar í íslenska lífeyriskerfinu með því hæsta sem gerist í heiminum. Á meðan lífeyriskerfið hefur vaxið hefur ríkið skert almannatryggingar svo mjög að fjöldi lífeyrisþega, eldri borgarar og öryrkjar, lifa undir framfærslu og undir lágmarkslaunum. Hvernig fer þetta með fólk, og hvað er til ráða?
Umsjón með þessum fyrsta þætti hefur Benjamín Julian.
Tónlist: Funky Moon eftir Stefan Kartenberg (CC BY 3.0).