Umhverfismál og loftlagsbreytingar hafa verið eitt af brýnustu málefnum heimsins undanfarin ár og þó að við lítum stundum á heimili þeirra innan raun- og náttúruvísinda, þá skiptir sjónarhorn félagsvísindanna ekki síður máli til að skilja áhrif þeirra á líf einstaklinga og hópa, sem og áhrif okkar á umhverfið. Til að ræða þetta spjallaði Sigrún við Malcolm Fairbrother en hann er prófessor í félagsfræði við Háskólann í Umea í Svíþjóð og gegnir að hluta til sömu stöðu við Háskólann í Graz í Austurríki.
Malcolm hefur skrifað á sviðum umhverfis- og stjórnmálafélagsfræði og þá sérstaklega hefur hann velt fyrir sér hvaða áhrif traust hefur á það hvað fólk er tilbúið að leggja á sig í umhverfismálum. Þau Sigrún ræða rannsóknir hans sem tengjast alþjóðavæðingu, trausti og umhverfismálum og fara einnig lauslega yfir hvers vegna COVID-19 er félagsfræðilega áhugavert og upplifun hans á leið Svía varðandi heimsfaraldurinn.