Viðfangsefni þjóðfræðinnar eru fjölbreytt en hefðir og hátíðir eru gjarnan umfjöllunarefnið. Segja má að jólin séu háannatími hjá mörgum þjóðfræðingum enda eru þeir miklir sérfræðingar þegar kemur að hátíðarhöldum og gleðskap.
Í sérstökum jólaþætti bregða Dagrún og Vilhelmína undir sig betri fætinum og ræða við þjóðfræðingana Rósu Þorsteinsdóttur, Jón Jónsson, Eirík Valdimarsson, Áka Guðna Karlsson og Dagnýju Davíðsdóttur sem segja frá jólaminningum og jólahefðum. Í þættinum ríkir sannkölluð jólagleði en fátt er betur fallið til þess að koma fólki í góða jólastemningu en þjóðlegur fróðleikur í bland við jólasögur, jólakvæði, jólasálma, jólamat, jólagjafir, jólasnjó, jólahefðir, jólaköttinn og jólasveina. Hellið malti og appelsíni í glas, fáið ykkur mandarínur og mackintosh og eigið notalega jólastund.
Í lok þáttarins er spiluð upptaka úr þjóðfræðisafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þar sem Helga Bjarnadóttir ljósmóðir, f. 1896 á Klúku í Bjarnarfirði flytur kvæðið Nú fara í höndur þau fallegu jól.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir í þjóðfræði og fjölbreytta miðlun á þjóðfræðiefni. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.