Matur er mannsins megin og öll þurfum við að borða. Við komumst ekki af án matar og verjum gríðarlega tíma á hverjum degi í að hugsa um mat, meðhöndla mat og auðvitað borða mat. Matarmenning og matarhættir eru frjótt og öflugt rannsóknarsvið innan þjóðfræði, en breytingar í samfélaginu endurspeglast meðal annars í því hvernig við nálgumst mat og hvernig og hvað við borðum.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Jón Þór Pétursson sem lauk doktorsprófi í þjóðfræði frá Háskóla Íslands í maí 2020. Rannsókn Jóns Þórs ber yfirskriftina Matarnánd: Myndun sambanda innan matarvirðiskeðjunnar. Í rannsókninni fjallar Jón Þór um matarnánd í tengslum við staðbundinn mat, lífrænan mat og menningararfsmat. Jón Þór fjallar um merkingu og tengsl sem fólk myndar við matinn, framleiðendur og milliliði. Í þættinum segir Jón Þór frá ransókninni og hvernig gildum um mat er miðlað í gegnum frásagnir sem skapa um leið virði og samhengi í kringum matinn og neysluna. Við ræðum einnig um íslenska skyrið sem áður var gert á heimilum en er nú verksmiðjufarmleitt og skilgreint sem menningararfsmatur.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um rannsóknir og miðlun í þjóðfræði. Sjónunum er beint að fólki og hvaða merkingu það leggur í siði og venjur, hluti og umhverfi. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.