Hvernig er hægt að útskýra eða fanga hljóðheim í orðum? Er kannski eitthvað sem aðeins er hægt að upplifa með öðrum hætti en í gegnum orð? Tónlist hefur margvísleg áhrif á fólk og skapar meðal annars ákveðna stemningu og hughrif. Íslenska langspilið fer kannski ekki hátt í dægurtónlist nútímans en það á sér áhugaverða sögu og er enn notað í tónlistarsköpun.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Eyjólf Eyjólfsson þjóðfræðing og tónlistarmann en rannsóknarefni hans er hljóð- og undraheimur langspilsins. Í meistararannsókn sinni rannsakaði Eyjólfur langspilið, sögu þess og upplifun fólks af tónlistarflutningi á langspil. Að auki vann Eyjólfur verkefni með grunnskólabörnum í Flóaskóla þar sem þau smíðuðu langspil hvert með sínu nefi og lærðu að leika á það. Eyjólfur segir frá rannsókninni og sínum viðfangsefnum tengdum tónlist og langspili.
Í lok þáttarins er leikið verkið Heimildaskrá í flutningi Gadus Morhua Ensemble.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.