Það má sannarlega segja að dýralæknirinn Laufey Haraldsdóttir hafi undið sínu kvæði í kross þegar hún ákvað að læra þjóðfræði. Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Laufeyju
Laufey starfar nú sem lektor við ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Laufey segir frá náminu við ferðamáladeildina en þar eru allar námsleiðir í boði í fjarnámi. Laufey segir einnig frá rannsóknum sínum á sviði ferðamálafræða, meðal annars áhugaverðri rannsókn um ferðamennsku í Grímsey.
Í rannsókninni voru spurningaskrár lagðar fyrir ferðamenn sem heimsækja eyna en að auki voru ferðir gesta kortlagðar með GPS staðsetningarbúnaði. Gögnin veita áhugaverða innsýn í viðhorf ferðamanna til Grímseyjar sem og hvernig þeir ferðast um eyjuna meðan á dvöl þeirra stendur. Niðurstöðurnar munu meðal annars nýtast heimamönnum til að hlúa betur að ábyrgri ferðamennsku í eynni. Laufey ræðir einnig ímynd Grímseyjar sem sem áfangastaðs fyrir ferðamenn, sem tengist ímynd norðursins og þess afskekkta. Þá segir Laufey einnig frá nýrri og spennandi rannsókn sem hún er að fara af stað með og fjallar um handverk á norðurslóðum.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir kennarar í þjóðfræði við Háskóla Íslands.