Farskóli FÍSOS, Félags íslenskra safna og safnmanna, fer fram á Hótel Hallormsstað dagana 21.-23. september. Farskólinn er árleg fagráðstefna safnafólks á Íslandi og í ár er yfirskrift hans Söfn á tímamótum. Farskólinn, sem var fyrst haldinn árið 1989, er mikilvægur vettvangur endurmenntunar og samstarfs meðal íslenskra safna. Á hverju hausti hittist safnafólk, ber saman bækur sínar, kynnist því sem verið er að gera í safnastarfi víða um land og styrkir um leið tengslanet sitt. Farskólinn er jafnan vel sóttur en í ár verða þátttakendur í Farskólanum á Hallormsstað í kringum 120.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við í Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur, safnstjóra Minjasafns Austurlands, en hún er í skipulagsnefnd Farskólans í ár. Elsa Guðný segir frá dagskrá Farskólans og ræðir einnig mikilvægi fagráðstefnu af þessu tagi fyrir íslenskt safnasamfélag sem er gífurlega fjölbreytt.
Þá verður einnig rætt við Ólöfu Gerði Sigfúsdóttur, doktorsnema í safnafræði. Ólöf Gerður er formaður Íslandsdeildar ICOM og mun, ásamt Hólmari Hólm, leiða málstofu á Farskólanum þar sem ný safnaskilgeining verður til umræðu. Í þættinum segir Ólöf Gerður frá áherslum í nýju safnaskigreiningunni sem samþykkt var á ársþingi ICOM í Prag fyrr á þessu ári en í málstofunni á Farskólanum verður þýðing þessarar nýju skilgreiningar fyrir safnastarf á Íslandi rædd.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir kennarar í þjóðfræði við Háskóla Íslands.