Á ári hverju úthlutar Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkjum til spennandi verkefna. Síðasta sumar styrkti sjóðurinn fjölbreytt verkefni nemenda við námsbraut í þjóðfræði og safnafræði. Í þættinum verður fjallað um tvö þessara verkefna, annars vegar verkefnið Viðhorf almennings til fjallkonunnar og 17. júní og hins vegar verkefnið Gömlu dansarnir á nýjum tímum.
Í fyrri hluta þáttarins ræða Dagrún og Vilhelmína við Önnu Kareni Unnsteins, meistaranema í þjóðfræði, sem segir frá verkefni sínu um viðhorf almennings til fjallkonunnar og hátíðarhalda á 17. júní. Í sumar safnaði hán heimildum, með viðtölum og spurningaskrá, um viðhorf fólks til fjallkonunnar og hátíðarhalda á þjóðhátíðardaginn. Að auki ræddi Anna Karen við konur sem hafa verið í hlutverki fjallkonunnar í Reykjavík á undanförnum árum. Anna Karen segir frá rannsókninni og ræðir þá merkingu sem fólk leggur í fjallkonuna og hugmyndir um tengsl hennar við feminisma.
Í seinni hluta þáttarins ræða Dagrún og Vilhelmína við Guðnýju Jónsdóttur og Atla Frey Hjaltason, þjóðfræðinema. Þau unnu saman verkefni um gömlu dansana og hvernig þeir eru iðkaðir í samtímanum. Í sumar heimsóttu Atli og Guðný skemmtanir á vegum Félags harmoniku unnenda þar sem dansinn og harmonikutónlist réðu ríkjum. Þau tóku viðtöl og söfnuðu upplýsingum um reynslu og viðhorf fólks til harmonikutónlistar og gömlu dansanna. Þá langaði þau að skoða þessa gerð skemmtanamenningar sem og hvernig endurnýjun væri í þessum hópi og hvernig samtali á milli kynslóða væri háttað.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir kennarar í þjóðfræði við Háskóla Íslands