Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Rannveigu Karlsdóttur þjóðfræðing og kennara við Verkmenntaskóla Akureyrar.
Rannveig segir frá starfsemi Sögufélags Eyfirðinga og tímariti félagsins, sem nefnist Súlur. Að auki ræðir Rannveig rannsóknir sínar á Jóninnu Sigurðardóttur (f. 1879 – d. 1962) matreiðslukennara á Akureyri. Eftir að hafa numið meðal annars hússtjórn í Danmörku kom Jóninna heim, ferðaðist um Norðurland og kenndi matreiðslu við miklar vinsældir. Í kjölfarið kom hún að stofnun húsmæðraskóla á Akureyri og varð fyrsti formaður skólanefndar. Hún rak einnig hótel og gaf út vinsæla matreiðslubók þar sem hún lagði áherslu á að kynna nýjar uppskriftir sem hún lærði erlendis, næringargildi og nýtni. Í þriðju útgáfu bókarinnar var tungumálið henni hugleikið en í bókinni íslenskaði hún nánast öll hráefnisheiti. Jóninna þótti mikill skörungur á sinni tíð en árið 1959 var Jóninna sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og nýlega var gata á Akureyri nefnd eftir henni.
Í upphafi þáttarins segir Rannveig einnig frá námi sínu og störfum en aðalstarf hennar er íslenskukennsla við Verkmenntaskólann. Að auki kennir Rannveig valáfanga í þjóðfræði sem stendur nemendum skólans til boða en þar læra nemendur að skoða samfélagið út frá þjóðfræðilegum aðferðum og sjónarhornum.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir kennarar í þjóðfræði við Háskóla Íslands.