Í þættinum ræðir Vilhelmína við Jón Jónsson þjóðfræðing og verkefnisstjóra hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum – þjóðfræðistofu.
Í desember á síðasta ári kom út bókin Álagablettir á Ströndum. Höfundar eru feðginin Jón og Dagrún Ósk Jónsdóttir og er útgáfan samstarf milli Rannsóknasetursins og Sauðfjárseturs á Ströndum. Bókin er ríkulega myndskreytt en Jón og Dagrún gengu á alla þá staði sem fjallað er um í bókinni og mynduðu álagabletti. Þau ræddu einnig við heimafólk og staðkunnuga og söfnuðu nýjum frásögnum af álagablettum sem enn lifa í munnmælum. Jón segir frá tilurð bókarinnar og rannsóknum á álagablettum á Ströndum. Þá ræðir hann mikilvægi þess að rannsóknum sé miðlað með aðgengilegum hætti til almennings.
Sögur af álagablettum hafa ákveðin einkenni. Í sögunum kemur fram aðvörun um að ekki skuli gera eitthvað á álagablettinum eða í námunda við hann. Ef brotið sé gegn því þá fylgir einhver refsing í kjölfarið. Jón ræðir sögurnar í víðu samhengi, um söfnun þjóðfræðiefnis og hvernig frásagnir og þekking er tengd landslagi. Jón segir einnig frá skelfilegum atburðum sem áttu sér stað í Goðdal árið 1948 þegar snjóflóð féll og sex manns fórust. Í fréttaflutningi um málið var strax farið að tengja atburðina við þjóðsagnaminnið um álagablett á jörðinni.
Í lokin segir Jón frá öðrum verkefnum Rannsóknasetursins, meðal annars frá stórri rannsókn á sérstæðri dagbók frá svæðinu, rannsóknum á þjóðtrú og verkefni sem tengist gömlum ljósmyndum. Þá eru áhugaverðar sýningar framundan. Í sumar mun opna ný sýning um heimsóknir hvítabjarna á Vestfjörðum á Sauðfjársetrinu og einnig verður opnuð ný sýning í kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði, sem er hluti af Galdrasýningunni á Ströndum.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.