Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Elsu Ósk Alfreðsdóttur þjóðfræðing. Elsa starfaði um árabil sem kennari við námsbraut í þjóðfræði og kenndi meðal annars námskeið um alþýðulækningar og hátíðir og leiki. Hún hefur alltaf haft brennandi áhuga á þjóðfræði, náttúrunni, jurtum og framandi menningu.
Elsa segir frá yfirgripsmikilli rannsókn sinni á grasalækningum á Íslandi. Hún segir frá alþýðuhefðum í tengslum við lækningajurtir og hvernig sú hefð getur fylgt ákveðnum fjölskyldum. Elsa tók viðtöl við afkomendur Grasa-Þórunnar sem varð hálfpartinn að þjóðsagnapersónu vegna kunnáttu sinnar á grasalækningum og færni sem ljósmóðir. Grasalækningahefðir hafa þróast og breyst í gegnum árin og ræðir Elsa og hvernig hefðirnar birtist okkur í samtímanum en á undanförnum árum hefur orðið endurvakning í tengslum við nýtingu á grösum. Einnig má sjá áhugaverð átök um stöðu þekkingar í þessu samhengi, þar sem alþýðulækningar eru skilgreindar út frá vestrænum læknavísindum.
Nýverið setti Elsa á fót heilunar- og jurtasetrið Venus þar sem hún býður upp á höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun, námskeið og vinnustofur um jurtir og náttúrulækningar, þjóðleg fræði og dulspeki.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.