Er huldufólk raunverulegt? Er eitthvað að marka drauma? Hvað með öll táknin og fyrirboðana? Að minnsta kosti eru enn sagðar sögur af huldufólki, fólk ræður í drauma og tákn og margir telja vissara að ganga ekki undir stiga og fara sérstaklega varlega á föstudaginn þrettánda.
Símon Jón Jóhannsson er manna fróðastur um huldufólk, fyrirboða og tákn en hann er afkastamikill í útgáfu á þjóðlegum fróðleik. Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Símon Jón um nýjustu bók hans Hulduheimar, þar sem sagt er frá huldufólksbyggðum víðs vegar um landið. Talið berst einnig að hjátrú, fyrirboðum og draumráðningum sem enn, líkt og huldufólk, er sívinsælt umræðuefni meðal fólks.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.