Á ári hverju úthlutar Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkjum til spennandi verkefna. Síðasta sumar styrkti sjóðurinn hvorki fleiri né færri en 13 nemendur við námsbraut í þjóðfræði og safnafræði til að vinna að fjölbreyttum verkefnum.
Í þættinum verður fjallað um tvö þessara verkefna, annars vegar verkefnið Hundgá og hins vegar verkefnið Endurofið. Bæði verkefnin sýna svo ekki verður um villst hvernig þjóðfræðiefni og þjóðfræðirannsóknir geta orðið uppspretta nýsköpunar og menningarmiðlunar.
Viðmælendur í þættinum eru tveir. Í fyrri hluta þáttarins ræða Dagrún og Vilhelmína við Ingibjörgu Sædísi, meistaranema í þjóðfræði, sem segir frá verkefninu Hundgá. Verkefnið gekk út á að safna samtímaheimildum og sögum um íslenska fjárhundinn með því að taka viðtöl við eigendur og ræktendur íslenska fjárhundsins. Viðtölin verða varðveitt í þjóðfræðisafni Árnastofnunar. Verkefnið vatt upp á sig og Ingibjörg Sædís vann fimm innslög um íslenska fjárhundinn sem birtust í sumar í þáttunum Sumarmál á Rás 1.
Í seinni hluta þáttarins ræða Dagrún og Vilhelmína við Álfrúnu Pálmadóttur, þjóðfræðinema, en hún og Ása Bríet Brattaberg fatahönnunarnemi unnu saman verkefnið Endurofið. Verkefnið gengur út á að skapa vaðmál framtíðarinnar úr fötum sem fólk er hætt að nota. Verkefninu lauk með athyglisverðri sýningu sem var haldin 12.-14. ágúst í sýningarrýminu Flæði og vakti meðal annars athygli út fyrir landssteinana hjá aðstandendum New York Textile Month.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.