Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Önnu Sigríði Melsteð sem lauk grunnnámi í þjóðfræði árið 2021 og stundar nú framhaldsnám í þjóðfræði. Anna Sigríður er búsett í Stykkishólmi og hefur stundað námið í fjarnámi og samhliða vinnu.
Anna Sigríður segir frá áhugaverðri BA-rannsókn sinni. Þar gerði hún heimabæ sinn, Stykkishólm, að viðfangsefni. Stykkishólmur er þekktur fyrir gömul og vel við haldin timburhús en nýjum húsum hefur einnig verið bætt við bæjarmyndina og stundum greina áhorfendur ekki á milli gamalla og nýrra húsa.
Anna segir frá vinnu við nýja grunnsýningu fyrir byggðasafnið í Norska húsinu. Grunnsýning safnsins er orðin 20 ára gömul og nú stendur yfir vinna við að gera nýja sýningu. Anna segir einnig frá Skotthúfunni sem haldin verður 2. júlí í sumar. Á Skotthúfunni er íslenska þjóðbúningnum gert hátt undir höfði en einnig er ýmislegt annað til skemmtunar á hátíðinni. Að lokum segir Anna frá þjóðtrú tengdri göngu á Helgafell í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.