Jazztónlist nam land hér á landi á 3. áratug síðustu aldar. Ekki voru allir á einu máli um ágæti þessarar nýju tónlistar og þeirra danshreyfinga sem henni fylgdu. Margir stungu niður penna til að vara við siðspillingunni og þeirri ógn sem slíkri tónlist fylgdi, ekki hvað síst fyrir óhörðnuð ungmenni. Þessi orðræða var ekki einskorðuð við Ísland heldur á hún sér hliðstæðu víða um heim, meðal annars í Ástralíu.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Ólaf Rastrick dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands sem kennir meðal annars námskeið um íslenska þjóðhætti, ómenningu og menningararf. Rannsóknir Ólafs hafa að miklu leyti verið á sviði menningarsögu og menningarpólitíkur. Í þættinum segir Ólafur frá rannsókn sinni á landnámi jazz hér á landi og þeim viðbrögðum og viðtökum sem jazzinn fékk. Orðræðan um siðspillandi áhrif jazzins er sett í samhengi meðal annars við samfélagsbreytingar í upphafi síðustu aldar, fullveldi Íslands og sköpun þjóðernis.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.