Í febrúar opnaði sýningin Sund í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ. Sýningarstjórar eru þau Brynhildur Pálsdóttir hönnuður og Valdimar Tr. Hafstein prófessor í þjóðfræði. Í þættinum ræðir Vilhelmína við Valdimar um sýninguna og þær umfangsmiklu rannsóknir þjóðfræðinga og fleiri sérfræðinga sem búa að baki sýningunni.
Í sundlaugum landsins eru engir viðskiptavinir, aðeins sundlaugargestir. Þar kemur saman fólk á öllum aldri, með fjölbreyttan bakgrunn og alls konar líkama á sundfötum. Valdimar segir frá upphafi sundvakningar og sundmenningar á Íslandi og hvernig hún hefur þróast í gegnum 20. öldina. Valdimar rekur upphaf sundkennslu á Íslandi og hvernig laugarnar þróast í að verða samkomustaður og athyglisverð almannarými. Á allra síðustu árum hafa hin svokölluðu baðlón aukið enn við sundmenningu landsins með aukinni áherslu á nautn og vellíðan sem fylgir svamli í heitu vatni.
Í lokin er þeirri spurningu velt upp hvort að sundlaugamenning á Íslandi sé menningararfur sem eigi mögulega heima á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.