Frá því um 1960 hefur Þjóðminjasafn Íslands safnað skipulega heimildum um lífshætti á Íslandi með því að semja spurningaskrár og senda út til fólks. Þannig hafa fengist umfangsmiklar heimildir um líf landsmanna í gegnum árin. Í upphafi voru spurningaskrárnar sendar bréfleiðis til heimildarmanna safnsins en í seinni tíð eru þær einnig aðgengilegar á netinu fyrir fólk til að svara.
Nú er þjóðháttasafn Þjóðminjasafnsins aðgengilegt á vefnum sarpur.is og þar getur fólk lesið svör úr þjóðháttasafninu og þannig kynnt sér ýmsa þjóðhætti. Þar er einnig hægt að svara spurningaskrám sem nú eru opnar og þannig getur fólk miðlað upplifunum sínum til dæmis af loftslagsbreytingum og lífinu á dögum kórónaveirunnar, eða deilt frásögnum af gæludýrum og laufabrauðshefðum. Safnið er hafsjór af fróðleik bæði um liðna tíð en einnig um samtímamenningu. Þjóðháttasöfnun er mikilvægur liður í því að varðveita þekkingu um hversdagsmenningu á hverjum tíma þar sem fólk segir frá eigin reynslu og þekkingu.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Ágúst Georg Ólafsson þjóðfræðing. Ágúst starfaði við þjóðháttasafn Þjóminjasafnsins til fjölda ára en lét af störfum um síðustu áramót. Því var tilvalið að ræða við Ágúst um þjóðháttasafnið og sögu þess, líta yfir farinn veg og fjalla um þær breytingar sem hafa orðið á undanförnum árum í söfnun þjóðfræðiefnis.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.