Í Reykjanesbæ standa upp undir 2.000 íbúðir tómar.Þær eru af ýmsum gerðum í ein- og fjölbýli og eru samtals um helmingur af öllu auðu og íbúðarhæfu húsnæði landsins. Ótaldar eru þó ófullgerðar byggingar á svæðinu.
Eignir þessar standa landfræðilega á tiltölulega afmörkuðu svæði. Hlutfallslega samsvarar fjöldi þeirra því að tugþúsundir íbúða stæðu tómar á höfuðborgarsvæðinu mitt í æpandi húsnæðiseklu.
Þetta ástand hefur varað allt frá hruni, þegar loftið lak úr íslensku fasteignabólunni. Viðbrögð bæjaryfirvalda hafa verið í skötulíki, þó að fólk í húsnæðishraki hafi fjölgað á tímabilinu. Bæjaryfirvöld hafa ekki umráðavald yfir eignunum. Ástandið fær litla umfjöllun í fjölmiðlum og umræðan á svæðinu rétt fyrir kosningar er jafn flatneskjuleg og flugbrautirnar á vellinum.
Hagfræðingar, sumir með Nóbelsgráðu, hafa dásamað íslensku leiðina út úr efnahagshruninu. Þeir lenda í Keflavík, taka rútuna í bæinn og halda fyrirlestra sína í Hörpunni.
Yrðu niðurstöður þeirra eins ef þeir stöldruðu aðeins lengur við í Keflavík? Færu í bíltúr einn eftirmiðdag og teldu tómar íbúðir og einbýlishús? Keflavík er á sinn hátt svar Íslands við Detroit í Bandaríkjunum. Borgin laðar að sér ljósmyndara alls staðar að sem taka myndir af tómum húsum. Í Keflavík eru hæg heimatökin og yfrið nóg myndefni örstutt frá flugvellinum. Hægt væri að selja ljósmyndaferðir um svæðið. Af nógu er að taka. Meðfylgjandi myndir eru frá Styrmi Barkarsyni. Hann tók yfir 300 myndir á nokkrum dögum. Þær voru að fjölda til aðeins toppurinn á ísjakanum.
Leiðsögumaður í ljósmyndaleiðangrinum þarf að útskýra fyrir útlendingum hvernig standi á neyðarástandi á leigumarkaði þar sem þúsundir íbúða standa auðar. Svæðið er íslenska efnahagsundrið fyrir og eftir hrun í hnotskurn. Þar er grafhvelfing „Græða á daginn, grilla á kvöldin“. Líkið af sparisjóðnum og féhirðinum. Beinagrindin af rafmagnslausa álverinu. Múmían af innhverfri einkavæðingu. Og síðast en ekki síst: Upp undir tvö þúsund íbúðir sem lánastofnanir láta grotna niður heilu og hálfu áratugina. Barnafjölskyldur á svæðinu í húsnæðishraki koma að luktum dyrum alls staðar í kerfinu. Þau sem hafa misst húsnæði sitt og lent á vanskilaskrá eru læst út í kuldanum. Kerfið yppir öxlum. Íslensk húsnæðispólítík eftir hrun.
Fengi svæðið efnahagslegt heilbrigðisvottorð frá Hörpuhagfræðingunum? Eða þarf að endurskoða hagfræðina?
Til að sjá fleiri myndir af tómum húsum í Reykjanesbæ smelltu hér.
Greinin birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann hér.