Eitt af því sem miklu ræður um lífskjör fólks og fjárhagslega stöðu er hversu mikil greiðslubyrði þess er vegna húsnæðisskulda.
Nú þegar endurskipulagning á eignarhaldi á fjármálakerfinu liggur fyrir, í samhengi við stöðugleikaframlag slitabúa föllnu bankanna og framkvæmd áætlunar um losun fjármagnshafta, þá gæti verið tilefni til að endurhugsa skattlagningu á fjármálakerfið.
Íslenska ríkið mun um áramót, ef allt gengur eftir, eiga um 70 prósent af fjármálakerfinu. Það er 98 prósent hlut í Landsbankanum, 100 prósent í Íslandsbanka og 13 prósent hlut í Arion banka. Íbúðalánasjóður kemur síðan til viðbótar.
Bankaskatturinn svonefndi hefur skilað miklum fjárhæðum í ríkiskassann og var upphaflega hugsaður til að auka greiðslur frá kröfuhöfum í ríkiskassann, og töluðu stjórnmálamenn mjög skýrt um skattinn með þeim hætti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár á hann að skila 26,8 milljörðum króna í ríkiskassann.
Þegar ríkið er orðinn stærsti eigandi fjármálakerfisins, blasir við staða sem kannski telst svolítið einkennileg.
Bankaskatturinn er 0,376 prósent skattur á allar skuldir bankanna. Hann kemur út sem álag ofan á útlán. Með öðrum orðum er almenningur að borga bankaskattinn, að minnsta kosti að hluta, í gegnum verri lánakjör og vaxtaálag. Samtals greiddu Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn átta milljarða króna í bankaskatt í fyrra.
Nú þegar almenningur verður helsti eigandi fjármálakerfisins er kannski ástæða til þess að leita leiða til að einfalda þetta, með það að markmiði að lækka vexti á íbúðalánum og bæta kjörin. Hvernig sem á þessu verður tekið, þá ætti hagur almennings að ráða ferðinni.