Af nýlegri könnun sem ég réðst í um hlutverk forseta Íslands má ráða að fólki þyki synjunarvaldið mikilvægt en leikreglur um það óskýrar. Þetta er slæmt fyrir lýræði og lýðréttindi. Um 700 manns tóku þátt í könnuninni, þátttaka var sjálfvalin, svo vænta má að einkum hafi þar farið sérstakt áhugafólk um stjórnmál og stjórnskipan. En hópurinn var stór og niðurstöður hans afgerandi.
Forsetaembættið er áhrifamikið
80% telja að forsetaembættið sé áhrifavaldur í íslensku samfélagi, sem er merkilegt fyrir þá sem segja það innantómt tákn. Svo er ekki samkvæmt þessu áliti. En mikill meirihluti vill ekki að forseti blandi sér í deilur líðandi stundar þótt svo hann geti verið áhrifavaldur um málefni sem hann kýs að setja á oddinn. Þetta er jafnvægislist. En þá er komið að synjunarvaldinu. ,,Eins og nú er málum háttað” vilja 70% að forseti hafi þetta vald, en heil 80% vilja að valdinu sé beitt ,,”varlega” eða sem “öryggisventli” aðeins. Hugmyndinni um aukið ,,forsetaræði” er því rækilega hafnað.
Óskýrar leikreglur
Spurt var:,,Aðeins núverandi forseti hefur beitt synjunarvaldinu (málskotsrétti), og það oftar en einu sinni, en fleiri forsetar hafa fengið áskoranir um slíkt án þess að hafa orðið við. Er að þínu mati skýrt hvenær og hvers vegna forseti beitir þessu valdi?”
Um þetta mikilvæga mál sem fólki er greinilega hjartfólgið var mikill samhljómur sem varpar ljósi á veikleika í stjórnkerfi okkar og lýðræðisfyrirkomulagi: Tæp 70% segja ,,frekar” eða ,,mjög óskýrt” hvenær og hvers vegna forseti beitir synjunarvaldinu.
Valdið til fólksins
Á Fésbókarsíðu kringum könnunina sköpuðust áhugaverðar umræður. Gísli Sigurðsson íslenskufræðingur sagði meðal annars við hópinn:
,,Það er andstætt öllum mínum lýðræðisskilningi að einn maður eigi að sitja uppi með raunverulegt vald til að ákveða hvort lögum sé vísað til þjóðaratkvæðis eða ekki. Vilji fólk hafa möguleika á að málum frá Alþingi sé vísað þá leið verða að gilda um það almennar reglur um að tiltekið hlutfall atkvæðisbærra manna óski eftir þjóðaratkvæði - ekki forseti þótt góður sé. Það er auðmýkjandi fyrir borgara í frjálsu landi (ath við erum ekki þegnar eins eða neins) að senda bænarskrá til eins manns um að gera eitthvað sem veltur á hans persónulega vilja.”
Þetta er einmitt kjarni málsins.
Hvað gerist nú?
Eins og ég hef skrifað um og talað fyrir í meira en áratug tel ég að færa eigi réttinn sem felst í synjunarvaldinu til fólksins eins og Gísli segir og margir krefjast. Til þess þarf langþráða stjórnarskrárbreytingu. Takist ekki að knýja málið í gegn á þessu þingi er skylduverk næsta forseta að skýra og skerpa á verklagsreglum um hvernig með skuli farið þegar fólk efnir til ,,bænaskrár”. Afnema auðmýkingu geðþóttavaldsins. Til þess má kalla til færstu sérfræðinga og vísa í tillögur stjórnlagaráðs. Hið endanlega vald verður áfram hjá forseta, hjá því er ekki komist meðan gamla stjórnarskráin er í gildi, en næsti forseti Íslands verður að virða borgarana svo mikils að skýrar leikreglur gildi um verklag í svona mikilvægum málum. Eftir þessu verður gengið í kosningabaráttunni sem í hönd fer.