Íslendingar hafa samtals greitt séreignarsparnað upp á 12,4 milljarða króna inn á húsnæðislán sín á árunum 2014 og 2015 sem hluta af leiðréttingunni svokölluðu, eins og greint var frá á vef Kjarnans í dag. Ríkið og sveitarfélög hafa veitt þeim hópi sem þetta hefur gert samtals 5,1 milljarð króna í skattafslátt.
Stjórnvöld vita ekki nákvæmlega hversu margir eru að nýta sér úrræðið en samkvæmt grófu mati á fjöldatölum sóttust um 35 þúsund manns eftir því. Hluti umsóknanna eru þó ekki virkar, samkvæmt svari efnahags- og fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.
Ef það fjölgar ekki hratt í hópi þeirra sem nýta sér úrræðið á næstunni þá mun það verða fjarri því að skila þeim 70 milljörðum króna í niðurgreiðslu á húsnæðislánum sem kynntir voru í leiðréttingarkynningum stjórnvalda.
Þá var ráð fyrir því gert að heildarumfang hinnar svokölluðu leiðréttingar yrði 150 milljarðar króna. Það stóð stórum stöfum á glæru upp á vegg á bak við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra þegar þeir kynntu aðgerðina.
Um 80 milljarðar fóru í að lækka höfuðstól verðtryggðra skulda þeirra sem áttu kost á aðgerðinni, en 70 milljarðar í viðbót áttu að koma í gegnum séreignaðarsparnað fólks.
Nú lá fyrir frá upphafi að aðgerðin var valkvæð. Spurningin er hvort ekki hefði verið betra að minnka aðeins letrið á glærunum þegar tölurnar voru annars vegar, og stækka letrið á fyrirvörunum. Það hefði í það minnsta sent út heiðarlegri skilaboð, heldur en sáust í kynningunni 10. nóvember í fyrra, eða fyrir nákvæmlega ári síðan í dag.