Ísland er eitt minnsta ríkjasamfélag heimsins, með íbúafjölda svipaðan og í Harlem (335 þúsund) í New York og Coventry á Englandi (317 þúsund). Samfélagið er þó stórt í þeim skilningi að það er afsprengi stórbrotinnar náttúru á landssvæði sem er hlutfallslega stórt miðað við heildaríbúafjölda, eða sem nemur meira tvöfaldri stærð Danmerkur, þar sem búa 5,7 milljónir.
Stutt hagsaga
Í okkar litla samfélagi, sem er nú ekki nema 71 árs undir fullu sjálfstæði, hefur byggst upp atvinnulíf sem er rótgróið auðlindum landsins. Sjávarútvegur hefur verið hryggjarstykkið, en samkvæmt tölum Hagstofunnar eru um 75 til 80 prósent af sjávarútvegi í landi, þar sem sjávarfangi er umbreytt í verðmæti, utan höfuðborgarsvæðisins. Þrátt fyrir blómlega útgerð í Reykjavík, þá eru þetta hlutföllin enn í dag.
Ferðaþjónustan er síðan að byggjast upp sem ein helsta atvinnugrein landsins, og hún hefur verið vítamínsprauta fyrir landsbyggðina ekki síst. Enda hafa viðhorfskannanir, meðal annars hjá Höfuðborgarstofu, sýnt að ferðamenn horfa ekki síst til íslenskra náttúru sem ástæðu fyrir komu sinni hingað. Með fullri virðingu fyrir náttúrunni á höfuðborgarsvæðinu, þá er það ekki hún sem vekur upp áhugann.
Ríkisstjórnin hefur á skömmum tíma sýnt í verki, að hún er með málefni landsbyggðarinnar framlega á forgangslistanum. Fyrst með tilkynningu um að hið opinbera muni aðstoða með fjárframlagi við að styrkja millilandaflug á landsbyggðinni, og síðan í gær kom tilkynning um opinberan stuðning við að halda byggð í Grímsey.
Dvergvaxnar
Ávallt koma fram raddir, þegar svo aðgerðir eru lagðar fram, þar sem því er mótmælt að hið opinbera styðji við þróun á landsbyggðinni sem mögulega getur eflt hana. Upphæðirnar eru yfirleitt dvergvaxnar, sé litið til margvíslegrar niðurgreiðslu mannlífsins á höfuðborgarsvæðinu, en látum það liggja milli hluta að þessu sinni. Nærtækt er reyndar að nefna hina svokölluðu leiðréttingu, þar sem 80 milljarðar voru millifærðir úr ríkissjóði inn á verðtryggðar skuldir sumra.
Sé litið til höfuðborgarsvæðisins og nærumhverfis, þá fór um 90 prósent af upphæðinni til íbúa á því svæði. Þrátt fyrir að það sé vitað, og margverið dregið fram með tölum, meðal annars um fasteignamat hjá Þjóðskrá, að verðþróun á fasteignum er að meðaltali mun hagstæðari en á landsbyggðinni, líka að teknu tilliti til verðbólgu. Stór hluti þeirra sem fengu þennan styrk höfðu ekkert með hann að gera, og peningana hefði mátt nýta mun betur annars staðar. Umræða um staðsetningar fasteigna og verðþróun eftir þeim, í samhengi við pólitískar yfirlýsingar um aðgerðina, fékkst reyndar eiginlega aldrei fram, einhverra hluta vegna. Það var helst að dr. Oddgeir Ottesen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og hagfræðingur, reyndi að benda á þetta og fleiri staðreyndir, en það var ekkert gert með þær upplýsingar.
Óþarfi að etja landsmönnum saman
En það sem helst er bagalegt í umræðum um þessi mál, er sú tilhneing að etja landsbyggðinni í þessu litla landi saman við það pínulitla borgarsamfélag sem þó þrífst á landinu. Það er algjör óþarfi að gera það, og mikilvægt að landsbyggðin átti sig á mikilvægi höfuðborgarsvæðisins fyrir landið allt - og einnig öfugt. Ísland er því miður ekki orðin Sílikondalurinn í norðri ennþá, þrátt fyrir afar skemmtilegt og kraftmikið frumkvöðlaumhverfi. Vonandi mun þekkingariðnaðurinn - sem ekki byggir á auðlindatengdum iðnaði nema þá að litlu leyti - eflast til muna á komandi árum með tilheyrandi atvinnutækifærum fyrir vel menntað fólk.
Efnahagsleg rök
Eins og hagkerfið er á Íslandi þá eru efnahagslegu rökin fyrir því að efla landsbyggðina þau sem ættu að vega þyngst í allri stefnumörkun, fremur en rómantísk eða tilfinningaleg rök um mikilvægi blómlegrar byggðar á landsbyggðinni. Af því leytinu til eru aðgerðir stjórnvalda eðlilegar, og munu vonandi leysa krafta úr læðingi. Sama hugsun ætti svo að móta umræðu um samgöngur víða utan höfuðborgarsvæðisins. Það svæði, það er höfuðborgarsvæðið, er á margan hátt skipulagsleg katastroffa, þar sem milljörðum er sóað á hverju ári vegna bílaborgarbrags og óhagkvæmra samganga vegna þess.
Enginn ætti að efast um þetta hafi neikvæð áhrif, enda hafa stjórnmálamenn viðhaldið lögum og reglum um sjálfstæða peningastefnu með örmyntina krónuna, þar sem 170 þúsund einstaklinga vinnumarkaður er látinn reyna að halda genginu stöðugu. Sóun á gjaldeyri er þung í skauti í því verkefni, og árangurinn er þekktur.
Lengi hefur verið talað um að bæta úr þessu með skipulagið og óhagkvæmnina á höfuðborgarsvæðinu, en lítið hefur gerst sem raunverulega heggur á hnúta. Þetta er stórt lífsgæðamál fyrir þetta mikla vaxtarsvæði sem höfuðborgarsvæðið er, og þá fyrir landið í heild.
Ójafnvægi í opinberum fjármálum
Eitt af því sem ekki hefur verið útfært enn, í fjármálum hins opinbera, er að tengja mikinn uppgang í ferðaþjónustunni við sveitarfélögin, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Þau ættu með réttu að fá hlutdeild í veltiskattstekjum (VSK), til þess að geta í það minnsta haldið í við innviðakostnaðinn sem fylgir auknum umsvifum. Stjórnmálamenn þurf að leysa þetta, áður en í meira óefni er komið. Fjárhagur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er mikið áhyggjuefni og mikilvægt að öllum steinum sé velt við í þeirri skoðun.
Skuldafskrift?
Varðandi opinberan stuðning við stöðu mála í Grímsey, þá er reyndar eitt atriði sem vekur nokkra furðu. Hvers vegna afskrifa bankar ekki „ósjálfbærar“ skuldir hjá útgerðum Grímsey? Þar er áratugasaga útgerðar, og þekkingin á grunnrekstrinum er fyrir hendi. Sligandi skuldsetning hjá fyrirtækjum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, hefur eftir hrunið verið leyst með því að afskrifa skuldir, samkvæmt stefnu þar um. Þó deila megi um þá stefnu yfir höfuð, þá hefur henni verið framfylgt.
Nefna má mörg dæmi um þetta. Til dæmis hefur útgáfufélag Morgunblaðsins, þar sem margt ríkasta fólk landsins er meðal hluthafa, fengið í tvígang skuldir afskrifaðar eftir hrunið. Upphæðin er tröllvaxinn, sé miðað við reksturinn og reyndar stöðu fyrirtækja á Íslandi almennt. Áður en fyrirtækið var selt árið 2009 voru skuldir lækkaðar um 3,5 milljarða og árið 2011 voru skuldir afskrifaðar um 944 milljónir.
Annað dæmi sem mætti nefna eru afskriftir á persónulegum ábyrgðum sem margir stóreignamenn og fjárfestar hafa fengið, eftir hrunið. Þar var galdurinn að skulda nógu mikið, umfram það sem hægt væri að greiða, svo að bankinn teldi sig knúinn til að semja um allt saman, og afskrifa skuldir í það minnsta niður að eignum.
Í það minnsta jafn traustur rekstur
Það ætti að vera krafa í atvinnulífinu, að svona lagað sé gagnsætt og opinbert. Útgerð í Grímsey er vafalítið með jafn lífvænlegan rekstrargrunn og útgáfufélag Morgunblaðsins. Því ættu bankar að geta komið fram með svipuðum hætti gagnvart Grímseyingum eins og hluthöfum Morgunblaðsins.Hvað sem þessu líður, þá bindur sá sem þetta skrifar, vonir við það, að umræða um íslenskt samfélag sé frekar á forsendum þess að fólk geti valið hvar á landinu það býr, og staðið og fallið með því, fremur en að skotgrafir séu myndaðar á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar. Það þjónar engum tilgangi, og hollt að minna sig á að Ísland er örríki sem býr við þá óskaplegu velmegun, að hafa ekki þau miklu vandamál sem tilheyra stærri þjóðfélögum í farteskinu.