Með ákvörðun kjararáðs, 17. nóvember síðastliðinn, er formlega búið að færa innistæðulausar launahækkanir upp allan launastigann og til æðstu ráðamanna. Það fer kannski vel á því, að þeir, það er ráðherrar, þingmenn, forsetinn og dómarar, fái meiri launahækkun, og það afturvirka frá 1. mars, heldur en flestar aðrar stéttir, fyrst það er á annað borð verið að hækka laun innistæðulaust. Hækkunin er 9,3 prósent.
Í kjararáði sitja Jónas Þór Guðmundsson, Óskar Bergsson, Hulda Árnadóttir, Svanhildur Kaaber og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Ábyrgð aðila vinnumarkaðarins, atvinnurekenda og stéttarfélaga, og stjórnvalda, á nýlegum kjarasamningum er mikil. Með þessum samningum er verið að ögra lögmálum sem allar aðrar þróaðar þjóðir í heiminum fara eftir, þegar samið er um kaup og kjör. Það er óhætt að tala um allar þróaðar þjóðir í þessu samhengi, því Seðlabanki Íslands hefur skoðað þau mál.
Hækkanir upp á 20 til 30 prósent á tveimur til þremur árum eru langt umfram framleiðniaukningu í hagkerfinu, og það hefur reyndar enginn dregið í efa. Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafa ekki reynt að mæla á móti þessu, enda er það ekki hægt nema með lýðskrumi sem alltaf dettur niður dautt að lokum.
Þegar fram í sækir, þá mun hin innistæðulausa launahækkun skila sér í aukinni verðbólgu, hærri vöxtum og versnandi kjörum fólks. Það er hin þekkta útkoma þegar samið er um hærri kjör en hagkerfið ræður við.
Það kemur ekki mikið á óvart að kjararáð telji 9,3 prósent hækkun launa núna, afturvirkt hálft ár aftur í tímann, vera eðlilega í ljósi þess sem samið hefur verið um. Nú hefur launaskriðið formlega farið upp allan skalann, og ástæðulaust lengur að deila um hvort það gerist eða ekki.
Ytri þættir hafa að undanförnu haldið niðri verðbólgu hér á landi, ekki síst gríðarlegt verðfall á ýmsum hrávörum, olíu og málmum meðal annars, á heimsmörkuðum. Þættir á Íslandi, eins og hækkandi fasteignaverð, hafa haldið lífi í verðbólgunni. Ef að örvarnar fara að snúa í sömu átt, bæði ytri og innri þættir, þá gæti voðinn verið vís.
Versti óvinurinn í svoleiðis stöðu eru innistæðulausar hækkanir á föstum kostnaði hjá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, og fyrirtækjum. Almenningur mun á endanum súpa seyðið af slíkri stöðu, og það er mikilvægt að halda því til haga, að stjórnvöld bera mesta ábyrgð á þessari stöðu. Þau gáfu tóninn í kjaraviðræðunum, og síðan hófst ferill sem nú hefur endað með ákvörðun kjararáðs.