Deilur Sóleyjar Tómasdóttur, oddvita Vinstri grænna í Reykjavík, og Lífar Magneudóttur, varaborgarfulltrúa flokksins, hafa vart farið framhjá neinum. Sóley setti Líf af sem formann mannréttindaráðs Reykjavíkur í síðustu viku og settist sjálf í formannsstólinn. Líf hefur neitað að tjá sig um ástæður þessa opinberlega og sagt það Sóleyjar að útskýra málið. Sóley hefur hins vegar ekki viljað tíunda þann ágreining sem á milli þeirra er. Þeir sem til þekkja telja að kergja hafi ríkt á milli kvennanna tveggja frá því að Sóley bar sigurorð af Lív í kosningum um oddvitasæti Vinstri grænna í aðdraganda síðustu kosninga. Þá sigraði Sóley Líf með einu atkvæði.
Í bakherberginu hafa innanbúðarmenn varpað nokkru ljósi á það sem átt hafi sér stað, en hvorki Líf né Sóley hafa viljað tjá sig um opinberlega. Samkvæmt frásögn þeirra átti Líf að hafa stungið upp á því að tvö ráð borgarinnar, stjórnkerfis- og lýðræðisráð og mannréttindaráð, yrðu sameinuð í sparnaðarskyni vegna afleitrar rekstrarstöðu Reykjavíkur. Sú tillaga hafi verið túlkuð sem trúnaðarbrestur af Sóleyju og því hafi farið sem farið.
Ljóst er að lítil ánægja er með ákvörðun Sóleyjar á meðal sumra samstarfsmanna hennar í meirihlutanum í Reykjavík. Einn slíkur kallaði vinnubrögð hennar „gerræðisleg“.
Þá er athyglisvert að verið sé að ræða sameiningu stjórnkerfis- og lýðræðisráðs við önnur, sérstaklega þar sem það var búið til í fyrra. Ráðið, sem Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata veitir forstöðu, hefur verið gagnrýnt af minnihlutanum fyrir að hafa óljósan tilgang. Árlegur kostnaður þess er áætlaður um 18 milljónir króna á ári.