Það má segja að dagurinn í dag hafi ekki verið góður fyrir ríkisstjórn Íslands. Hann hófst á því að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hellti sér yfir ríkisstjórnina í grein í Fréttablaðinu vegna þess ástands sem ríkir í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Kári sagði það vera orðið lýðum ljóst að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar myndi ekki sitja lengur en sem næmi þessu kjörtímabili og ef fjárlaganefnd myndi ekki hækka framlög til Landsspítalans áður en að fjárlög verða afgreidd myndu hann og nokkrir félagar hans safna 100 þúsund undirskriftum til að hvetja landsmenn til þess að kjósa aldrei aftur Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Gagnrýni Kára hefur vakið gríðarlega athygli og mikill fjöldi fólks hefur fylgt sér á bakvið hótun hans um að safna umræddum undirskriftum.
Höggið sem ríkisstjórnin hefur fengið á sig vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar um að senda fjölskyldu frá Albaníu úr landi síðastliðna nótt var ekki síður minna. Mynd af hinum þriggja ára gamla Kevi, sem þjáist af lífshættulegum hjartasjúkdómi, haldandi á tuskudýri á leið út um útidyrahurðina á heimili fjölskyldunnar í Barmahlíð í nótt vakti upp gríðarlega sterk viðbrögð, enda verið að senda hann í lögreglufylgd frá Íslandi til Albaníu, sem rekur eitt versta heilbrigðiskerfi Evrópu. Þúsundir hafa skrifað undir undirskriftarlista um að Ólöf Nordal innanríkisráðherra, sem ber ábyrgð á málaflokki hælisleitenda, segi af sér vegna málsins. Meira að segja Jón Magnússon, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hefur talað mjög fyrir því að landamæri Íslands séu sem mest lokuð, sagði í bloggfærslu í dag: „Þú rekur ekki veik börn í burtu, þú leysir vandann, og svo koma aðrir hlutir til greina.“
Ofan á allt annað mættu fulltrúar öryrkja og eldri borgara á fund fjárlaganefndar og settu fram kröfur um bætt kjör með miklum þunga, í ljósi bættrar stöðu ríkissjóðs og góðæris. Krafa þeirra virðist njóta mikils stuðnings í samfélaginu. Þá setti stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd ofan í við forystumenn ríkisstjórnarinnar fyrir gagnrýni þeirra á umboðsmann Alþingis vegna lekamálsins og sjálf Vigdís Hauksdóttir þurfti að setja fram breytingartillögu við breytingartillögu fjárlaganefndar vegna fjárlagafrumvarps um 1,2 milljarða króna viðbótarútgjöld vegna launa kennara sem gleymdist að reikna með í upphaflegu breytingartillögunni.
Það blæs því ekki byrlega hjá ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þessa daganna, sem þó hefur skilað í höfn mörgum af sínum helstu stefnumálum sem sett voru á oddinn í síðustu kosningum. Samt mælist samanlagt fylgi flokkanna vel undir prósentum um langt skeið og líklegt er að átökin um fjárlögin og hælisleitendurna muni ekki gera mikið til að hífa það upp.