Ritdeila Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, hefur skemmt mörgum í vikunni. Þar hafa stór orð fallið og hvorugur mannanna hikar ekki við að hjóla fast í persónu hins. Kári kallaði til dæmis forystumenn ríkisstjórnarinnar afturenda hinna loforðaglöðu í grein sinni en Sigmundur Davíð sagði Kára, eða Topparann eins og hann kallar Kára í grein sinni, yfirlætisfullan besservisser og yfirgangssegg sem telur alla aðra vera fábjána.
Fyrir utan persónulega skítkastið er margt annað áhugavert í greinunum tveimur. Meðal annars niðurlag greinar forsætisráðherra þar sem stendur: „En topparar láta staðreyndir eða framtíðina ekki þvælast mikið fyrir sér. Fyrir þá er aðalatriðið að vera maður líðandi stundar, sá sem fangar athyglina og verður vinsæll meðal trúgjarnra um sinn. Aðrir geta séð um að fást við afleiðingarnar.“
Þessari lýsingu má nefnilega vel snúa upp á forsætisráðherrann sjálfan. Sigmundur Davíð lofaði t.d. hluta þjóðarinnar háum verðbólguskaðabótum fyrir síðustu kosningar, gegn því að hún myndi kjósa hann. Hann fangaði athyglina og varð vinsæll á meðal trúgjarnra um sinn. Svo vinsæll að Framsókn fékk heil 24,4 prósent atkvæða og bílstjórasætið í nýrri ríkisstjórn.
Framkvæmd leiðréttingarinnar, sem á endanum mun kosta ríkissjóð um 80 milljarða króna, virðist hafa farið öfugt ofan í flest alla. Hún hefur að minnsta kosti ekki skilað flokknum neinni aukningu í könnunum, en þar mælist fylgi við hann iðulega öðru hvorum megin við tíu prósent. Margir sem kusu Framsókn á grundvelli loforðsins héldu að þeir myndu fá meira. Og hinir sem fengu ekkert sitja eftir með mikil ruðningsáhrif á fasteignamarkaði, hærri innlenda verðbólgu en ella og þá staðreynd að ríkisstjórnin forgangsraðaði tugum milljarða króna úr ríkissjóði í vasa hluta þjóðarinnar í stað þess að nota það fé í samneyslu.
Upphaflega var leiðréttingin rökstudd með því að lækka ætti verðtryggð lán niður að fjárhæð sem samsvaraði „verðbótum umfram tiltekið viðmið sem féllu á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010". Það viðmið var skilgreint sem 4,8 prósent verðbólga.
Þegar kom að framkvæmd leiðréttingarinnar var hins vegar komið í ljós að forsendubresturinn sem reiknaður hefði verið væri rugl. Þess í stað var ákveðið að gefa sömu upphæð og áður hafðið verið búið að reikna sig niður á, 80,4 milljarða króna, til þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009. Þá var ekkert verið að láta staðreyndirnar þvælast fyrir sér.
Og hvað þá framtíðina, unga fólkið sem fékk ekkert út úr leiðréttingunni nema verri aðstæður á húsnæðismarkaði, minna fé í samneyslu ríkissjóðs og eftirgjöf framtíðarskatttekna þess vegna séreignarlífeyrissparnaðar? Það var bara skilið eftir til að fást við afleiðingarnar.