Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fór mikinn þegar hann gagnrýndi Björk Guðmundsdóttur. Gagnrýni Jóns á Björk kom í kjölfar þess að hún kallaði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sveitalubba í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina. Sagði Jón meðal annars að Björk væri „frekar dauf til augnanna á bak við grímuna“.
Hann spurði enn fremur hvort Björk borgaði skatta á Íslandi.
Guðmundur Gunnarsson, faðir Bjarkar, hefur upplýst um að hún borgi skatta á Íslandi, og benti réttilega á það í stöðufærslu á Facebook, að Björk hefði með ýmsum hætti unnið að hagsmunum Íslands. Það er erfitt að mæla hennar framlag til fulls, en líklega er óhætt að segja enginn einn einstaklingur hafi gert meira fyrir orðspor Íslands erlendis en Björk.
Áhrifin eru auk þess öll jákvæð og djúpstæð, og það er mikill mislestur hjá Jóni ef hann heldur að brodduflugugagnrýni listamannsins Bjarkar á stjórnmálamenn á Íslandi, sé ekki hluti af þeim jákvæðu áhrifum.
Annað sem setur gagnrýni Jóns á Björk í merkilegt samhengi, er að skoða það út frá pólitískum veruleika Jóns sjálfs. Hann telur sig tilheyra flokki sem stendur vörð um frelsi einstaklings og upphefur einstaklingsframtakið, og það með réttu. Fátt er hollara samfélögum en athafnaskáld, sem með jákvæðri framtaksemi auðga mannlífið.
Björk - í allri sinni dýrð - er líklega áhrifamesta einkaframtak Íslandssögunnar, og þó víðar væri leitað. Það þarf ekkert að efast um innistæðuna hjá henni. Nærtækt er að nefna að hún var í fjórtánda sinn tilefnd til Grammy verðlauna á dögunum, og áhrif hennar í listaheiminum aukast sífellt. Engin Íslendingur kemst með tærnar þar sem hún hefur hælana.
Jón má alveg gagnrýna Björk eins og aðrir, en það verður að teljast undarlegt að hann skuli ekki hafa neitt málefnalegra fram að færa en að segjast ekkert skilja í henni, og að hún sé „daufleg til augnanna“. Hvað er Jón að fara með þessu? Það felst ekki mikil virðing fyrir einkaframtaki hennar í þessum orðum.
Líklega er algjör óþarfi að velta því fyrir sér hvað Jóni gekk til, og líta á þetta frekar sem hvert annað vindhögg sem ekkert skilur eftir sig. Annað en hið augljósa, að broddur í gagnrýni Bjarkar er beittur og hittir beint í mark.