Ég er áhugamaður um lýðheilsu en enginn sérfræðingur. Lýðheilsa er stórt hugtak, en sá angi þess sem ég hef mestan áhuga á er einhvers konar blanda af heimspeki og markmiðinu um bættan hag lífsins gangs. Hvernig megi gera lífið bærilegra, svona til einföldunar.
Almannahagur og sértæk atriði
Það getur oft verið snúið að ætla sér að vinna að hagsmunum allra, og um leið að ná sátt um markmið og fórnir sértækra atriða. Mér finnst sérfræðingar á sviði lýðheilsu oft tala fyrir daufum eyrum, þegar stjórnmálastéttin er annars vegar, en líklega er kominn tími á að almenningur velti lýðheilsumálum meira fyrir sér, og þá í víðu samhengi út frá því hvað hver og einn gert lagt af mörkum.
Aðkallandi vandi
Heilbrigðir lifnaðarhættir eru orðnir að einu mikilvægasta einstaka málefni samtímans, og skiptir þá engu hvort horft sé yfir stjórnmálsviðið eða önnur svið. Lífstílsbreyting fjöldans er aðkallandi til að sporna gegn mengun, vaxandi kostnaði sem fylgir auknum lífaldri og ósjálfbærri efnhagsþróun. Meðallífslíkur í heiminum eru nú um 71 ár (82 ár á Íslandi), og hefur aldurinn hækkað um meira en tíu ár á rúmum tveimur áratugum. Þetta þýðir aukinn kostnaður við heilbrigðisþjónustu, og þrýstir á um breyttar lífsvenjur, ekki síst á Vesturlöndum.
Beinharðir peningar
Nærtækt er að horfa til Evrópu og Bandaríkjanna, en þar hafa opinberar skuldir vaxið gríðarlega hratt á undanförnum árum, og það má segja um skuldbindingar seðlabankanna. Opinberar skuldir í Bandaríkjunum sem hlutfall af árlegri landsframleiðslu eru um 75 prósent, en í Evrópu eru þær rúmlega 92 prósent, þegar meðaltalið er skoðað. Þetta eykur á vandann sem snýr að lýðheilsu þjóða og gerir verkefnin meira aðkallandi. Hið venjubundna líf fólks í Evrópu og Bandaríkjunum er ósjálfbært, þegar staðan er greind út frá hagfræðilegum sjónarhóli og þrún rekstrar hina sameiginlegu sjóða. Þessu mótmælir enginn, en menn greinir á um hversu alvarlegt þetta sé.
Þegar allt kemur til alls eru það skattgreiðendur framtíðarinnar sem munu borga skuldirnar til baka, og það er ærið verkefni. Aðeins með stórkostlega miklu hagræði, minnkandi sóun og beinum sparnaði verður hægt að takast á við þennan mikla uppsafnaða vanda. Þar beinist kastljósið ekki síst að litlu hlutunum.
Borgarsamfélögin vaxa
Borgarsamfélög eru áhrifamest í þessu tilliti. Þar er flest fólk og hagkvæmar og umhverfisvænar lausnir á daglegum viðfangsefnum, eins og hvernig fólk eigi að koma sér milli staða, flokka rusl, nýta mat og haga vinnu sinni, munu skipta sköpum. Mikil framþróun hefur átt sér stað, en það þarf að ganga miklu lengra. Árið 2030 er gert ráð fyrir að 70 prósent af íbúum jarðar verði í borgarsamfélögum, og því munu ýmsar aðgerðir sem gera lífið þar heilsusamlegra skipta sköpum.
Guðmundur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Borgarbrags, fjallaði ítarlega um þessi mál, einkum álitamál er varða samgöngur, á vef sínum á dögunum, og þar má sjá að við erum á réttri leið, hvað Reykjavíkurborg varðar, en það er langt í land enn.
Höfuðborgarsvæðið er það svæði á Íslandi, þar sem meginþunginn í ætti að vera, enda býr þar 70 prósent þjóðarinnar.
Fólk taki málin í sínar hendur
Fyrr á árinu var ég á fundi Landsvirkjunar um loftslagsmál, þar sem dr. Halldór Björnsson, hjá Veðurstofu Íslands, var á meðal þeirra sem flutti erindi. Margt af því sem hann sýndi, meðal annars efna- og eðlisfræðilegar röksemdir sem sanna að mengun af mannavöldum er að skaða jörðina og lofthjúpinn, var sláandi. En aðspurður um hvað væri áhrifamest að gera, sagði hann að fólk gæti breytt miklu sjálft. Litlu hlutirnir eru í stóru hlutirnir. Hann reyndi að gera þetta sjálfur.
Ef fólk setur sér markmið um að menga minna, t.d. með því að labba eða hjóla meira, á kostnað bílferða, þá stuðlar það að betri lýðheilsu fjöldans í leiðinni. Það sama má segja um flokkun á rusli, betri nýtingu á matvælum og orku.
Hér eru engar töfralausnir til, en tími sóunnar ætti að vera liðinn. Fólk ræður þessu sjálft, og það á ekki endilega að taka við leiðbeiningum frá stjórnmálamönnum í þessum efnum, ef það truflar einhvern.
Heilbrigð skynsemi segir manni, að heilbrigðir lifnaðarhættir, til dæmis regluleg hreyfing og að eyða ekki um efni fram – sóa ekki – er afar brýnt málefni. Söguleg sátt á sviði stjórnmálanna, um aðgerðir í loftslagsmálum, eins og náðist í París á dögunum, er ekki eins áhrifamikil og lífstílsbreyting almennings til hins betra.
Þar leggja einstaklingar sitt af mörkum, án þess að vera með skriflega samningar á borðinu, og ef það gera það nógu margir þá uppsker fjöldinn ríkulega með bættri heilsu. Margt smátt gerir eitt stórt á við í þessu, eins og mörgu öðru.