Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) vinnur nú að því að selja frá sér eignir. Fjórir fjárfestahópar munu ganga til viðræðna um kaup á öllum eignum Hildu, dótturfélags ESÍ.
Hóparnir fjórir voru settir saman af fjármálafyrirtækjunum Arctica Finance, Virðingu, Kviku fjárfestingarbanka (sameinaður banki Straums og MP banka) og ALM Verðbréfum. Þetta kom fram í DV á dögunum.
Hilda á 364 fasteignir sem bókfærðar eru á 6,6 milljarða króna, 387 útlán (til 260 lántakenda) og önnur skuldabréf sem metin eru á 5,7 milljarða króna og handbært fé/kröfur upp á 2,9 milljarða króna.
Hilda á alls sex dótturfélög og hjá félaginu starfa 13 starfsmenn. Það hagnaðist um 1,5 milljarð króna á fyrstu sex mánuðum ársins og munaði þar langmestu um hreinar rekstrartekjur, sem eru sala eigna og lána á tímabilinu.
Auk þess námu leigutekjur 139 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.
Þessi eignaumsýsla ESÍ er athyglisverð. Eins og Kjarninn hefur áður fjallað um, þá mætti Seðlabanki Íslands ganga mun lengra í því að selja frá sér eignir með gagnsæi að leiðarljósi, einkum meðan söluferlið er í gangi. Almenningur á þessar eignir, og það verður allt að þola dagsljósið í þessum efnum, á meðan á söluferlinu stendur. Það er ekki nóg að opna dyrnar eftir á.
Vafalaust er ekki mikill vilji til þess að stórfelldir efnahagsbrotaglæpamenn kaupi þessar eignir í gegnum andlitslaus félög, svo dæmi sé tekið. En slíkt getur gerst, ef ekki er passað upp á ferlið.
Það heyrir meira upp á Alþingi en Seðlabanka Íslands, að skapa almennilegan lagaramma um þetta ferli.
Það verður að teljast undarlegt, að ESÍ telji sig geta stundað eignaumsýslu sem þessa í ljósi athugasemda sem komið hafa fram frá Umboðsmanni Alþingis. Hann hefur sagt, að Seðlabanki Íslands hafi ekki haft skýra lagaheimild til þess að flytja verkefni til ESÍ í upphafi. Ef þetta er rétt hjá Umboðsmanni, þá er ljóst að ESÍ er á afar veikum lagagrunni að stunda tugmilljarða viðskipti með eignir almennings, og ætti frekar að fara sér rólega í þessari eignasölu en hitt, á meðan lagalegur grundvöllur stofnunar ESÍ er óljós.
Athugasemdir Umboðsmanns, er varða ýmsa aðra þætti sem snerta rannsóknar- og eftirlitshlutverk bankans í gjaldeyrismálum, eftir að fjármagnshöftum var komið á í nóvember 2008, eru grafalvarlegar og full ástæða til að velta við hverjum steini í leit að sannleikanum í þeim efnum.
Annað er síðan, að sporin hræða þegar kemur að lagalegum álitamálum er varða ýmislegt sem Seðlabanki Íslands á að hafa eftirlit með og framkvæma. Til dæmis fór það algjörlega framhjá helstu lögspekingum bankans, þegar heill lánaflokkur í íslenska bankakerfinu upp á mörg hundruð milljarða var ólöglegur, það er gengistryggð lán í krónum. Hæstiréttur hefur staðfest að slíkur lánaflokkur var ólöglegur með endurteknum dómum.
Helstu lögfræðingar bankans greindu þetta ekki, þrátt fyrir skýrt eftirlitshlutverk sitt og að lögum samkvæmt eigi bankinn að stuðla að fjármálastöðugleika og hafa eftirlit með honum. Sannarlega varðaði umfang þessara lána í bankakerfinu fjármálastöðugleika, eins og óþarft er að hafa mörg orð um, í ljósi hins fordæmalausa hruns bankakerfisins dagana 7. til 9. október 2008.
Nú þegar vel rökstudd atriði, sem varða lagaleg álitaefni um eignaumsýslu á vegum ESÍ, eru komin fram, ætti bankinn að fara sér hægt, og setja almannahag í fyrirrúm. Hafa öll atriði upp á borðum, um hvaða eignir er verið og selja og hvaða einstaklingar, sjóðir og fyrirtæki hafa áhuga á þeim.