Það bárust hörmuleg tíðindi frá Danmörku í gær, og í dag einnig. Dönsk yfirvöld vilja fá leyfi til að leggja hald á peninga og verðmæti sem flóttafólk hefur með sér þegar það kemur til landsins, verði tillaga stjórnvalda að veruleika. Féð á að nota til að greiða fyrir uppihald fólksins. Hugmyndin hefur verið gagnrýnd harkalega, ekki síst á samfélagsmiðlum og í ritstjórnargreinum fjölmiðla á Vesturlöndum, og bent á hliðstæður í þessum vilja danskra stjórnvalda, við meðferð á Gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Lesendur fjölmiðla halda margir að fréttin sé uppspuni en svo er ekki.
Um miðjan nóvember lagði danska ríkisstjórnin fram 34 tillögur um herta stefnu í málefnum flóttafólks, og birti Politiken ítarlega umfjöllun um þær. Ein þeirra felur í sér að lögregla fái heimild til að fara í gegnum eigur flóttafólks í leit að verðmætum og leggja hald á peninga og verðmæta hluti eins og skartgripi, eins og rakið var í frétt RÚV..
Finnist verðmæti sem metin eru á meira en þrjú þúsund krónur danskar, jafnvirði um sextíu þúsund íslenskra króna, má gera þau upptæk. Ekkert stendur í tillögunum um hvort þetta þurfi að byggja á einhverju öðru en einfaldlega eignaupptöku stjórnvalda af flóttafólki.
Þetta fé á svo að nota til að greiða fyrir fæði fólksins og húsnæði.
Tillögur danskra stjórnvalda eru ævintýralegt hneyksli og fela í sér gróf mannréttindabrot gagnvart flóttafólki. Þetta eru sömu aðferðir og nasistar notuðu gagnvart gyðingum. Full ástæða er til þess að mótmæla þeim, og koma skilaboðum frá Íslandi til danskra stjórnvalda um að svona geri fólk ekki. Þetta eru ömurleg skilaboð frá Dönum til umheimsins, og níðingsháttur gagnvart fólki í neyð.