Friðrik Ingi Friðriksson, viðskiptamaður á Arnarnesi, vakti mikla athygli með ummælum sínum fyrir viku síðan um að tími væri kominn til að setja upp hlið á götur inn í hverfið. Ástæðan var sú að Friðrik varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að standa þjóf að því að stela bensíni af bíl fyrir utan heimili hans. Þá væru rútur ítrekað að koma með útlendinga til að skoða hverfið, sem væri hvimleitt. „Þjófnaðir á Arnarnesi eru að aukast. Það má ekki skilja eftir opinn bíl, þá er farið inn í hann,“ sagði Friðrik við DV.is.
Á Arnarnesi eru nokkur af íburðarmestu húsum sem fyrir finnast á Íslandi og þar býr mikið af vellauðugu fólki. Því varð Friðrik fyrir mikilli gagnrýni vegna ummæla sinna, meðal annars vegna þess að þarna væri snobb á ferðinni. Ríka fólkið vildi aðskilja sig frá lakara fólkinu.
Það er athyglisvert að skoða hvað sé til í fullyrðingum Friðriks um aukna glæpatíðni á Arnarnesi. Í skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um afbrot á árinu 2014 segir: „Fæst brot áttu sér stað í umdæmi lögreglustöðvarinnar 2 sem sinnir Hafnarfirði, Garðabæ[þar sem Arnarnesið er] og Álftanesi. Skráð voru 648 brot á svæðinu árið 2014 sem eru um 24 prósent fækkun á milli ára“. Þegar betur var að gáð áttu auk þess einungis 27 prósent þeirra brota sér stað í Garðabæ og Álftanesi.
Innbrotum fækkaði hlutfallslega mest á svæðinu, eða um 58 prósent, og auðgunarbrotum á borð við nytjastuld, til dæmis á bensíni, fækkaði næst mest, eða um tæplega helming á milli ára.
Því virðist sú tilfinning Friðriks að þjófnaðir á Arnarnesinu séu að aukast ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum.