The High School of Fashion Industries. Hann er staðsettur á 24. stræti á Manhattan í New York, vestanmegin. Að koma inn í skólann er eins og spóla aftur til 1990. Litir. Derhúfur. Hip hop-kultúr sjáanlegur, í bland við aðra New York-lega krafta. Þeir einkennast af fjölbreytni. Skólinn er sögufrægur fyrir góða kennslu og framúrstefnu.
Ég vaknaði upp við það, þegar við fjölskyldan fluttum hingað, að þetta tímabil fyrir aldarfjórðungi hefur birst manni oft í gegnum afþreyingariðnaðinn. Tónlist, kvikmyndir og tímarit ekki síst, hafa séð til þess að þessi um margt skemmtilega og skapandi mynd af New York, hefur fylgt manni í gegnum lífið, svo að segja.
Skólakerfi í stórborg
Í haust þegar strákar okkar tveir, átta og þriggja og hálfs árs, voru að fara í skóla - sá eldri í 3. bekk og sá yngri í það sem kallast Pre K (forskóla) - þá þurftum við að sækja um undanþágu frá ströngu kerfi New York borgar þegar kemur að svæðisskipulagi í opinbera skólakerfinu.
Þar er grunnhugsunin sú, að krakkar á sama svæðinu gangi saman í skóla. Í stórborg, þar sem búið er þétt, er þetta ekki einfalt mál. Ef fólk reynir að svindla á kerfinu, til dæmis, með því að færa heimilisfang tímabundið innan þess svæðis þar sem það vill að börnin fari í opinbera skóla, þá getur það farið í fangelsi.
Stéttleysið
Að baki þessu er sú fallega hugsun, að reyna að sporna gegn mis- og stéttaskiptingu, með því að tengja fjölskyldur með ólíkan bakgrunn saman í gegnum nærumhverfi sitt og opinbera skólakerfið.En það eru undantekningar sem sanna gildi reglna, og það sama á við um skólakerfið í New York. Það er oft hart barist um undanþágurnar. Skólarnir geta svo tekið á móti takmörkuðum fjölda, eins og gefur að skila.
Þegar við hjónin komum í salinn í High School of Fashion, þangað sem við vorum send og borgaryfirvöld höfðu komið upp tímabundinni aðstöðu, sáum við hversu stór vandamál geta skapast í borgarsamfélögum. Þegar inn var komið mátti sjá mörg hundruð manns, aðallega svartar mæður. Í fæstum tilfellum var karlmaður sjáanlegur þeim til stuðnings.
Barist fyrir börnin
Mæðurnar voru að berjast fyrir börnin sín, að reyna að koma þeim í þann skóla sem hafði á sér best orð í nágrenninu og hafði fengið bestu umsögn í mati borgaryfirvalda og foreldra, sem finna má á vefnum. Þetta er mikið hagsmunamál, ekki síst fyrir fólk sem ekki hefur neitt bakland eða fjárhagslega stöðu til að styðja við börnin í gegnum einkaskóla. Svo snýst þetta líka stundum um að halda vinskap á milli barna, og jafnvel fjölskyldutengslum.
Okkur hafði verið sagt að sýna Columbia-skólaskírteinið hennar Freyju (konu minnar), og fylla samviskusamlega út alla pappíra og reyna með öllum ráðum að tala fyrir mikilvægi þess að þeir bræður gætu verið í sama skólanum. Það hefði ekki verið raunin, ef sá eldri fengi ekki undanþágu, þar sem annað gilti um Pre K-kerfið en grunnskólana.
Þetta tókst að lokum. En það sem var sárast að finna, var að vera tekin fram fyrir röðina, í raun án þess að eiga það skilið. Margar mæður voru með tárin í augunum að skýra mál sitt. Það voru ekki allt fallegar sögur sem fólk hafði að segja. Þó starfsfólk borgarinnar hafði verið allt að vilja gert, þá var það þeim greinilega þungbært að segja nei í mörgum tilvikum.
Mæðurnar með veika baklandið áttu það frekar skilið en við, að fá undanþágur fyrir börnin sín. Það er alveg sama hvaða mælikvarði er notaður til að mæla það. Í það minnsta var það okkar mat, þrátt fyrir allt. En maður gleymir stundum að hugsa út í svona lagað.
Glímum við lúxus-vandamál
Þetta litla mál sýnir kannski ágætlega hvernig stórborgarlífið birtst venjulegu fólki. Á Íslandi er það óhugsandi staða að mörg hundruð mæður, með tárin í augun, stæðu í röðum til að fá að skrá börnin sín í opinbera skóla í nágrenninu. En jafnvel stefnumörkun með mannúðarsjónarmið að vopni, eins og er reyndin með svæðisskipulag í skólakerfinu í New York, hafa samt stór vandamál í farteskinu sem leysa þarf úr, oft með sársaukafullum hætti fyrir fólk.
Það er mikill lúxus fyrir Ísland að þurfa ekki að glíma við harðneskjuna sem oft fylgir alþjóðlegu stórborgarlífi. Þar er þétt búið og regluverkið er miskunnarlaust, enda ekkert annað í boði. Maður gleymir því stundum hvaða grunninnviðir á Íslandi eru sterkir og mannúðarlegir, miðað við víðast hvar annars staðar.
Það er gott að minna sig á það reglulega - ekki síst um jólahátíðir þegar fjölskyldur sameinast - hvers gott og öruggt er að búa á Íslandi, í samanburði við marga aðra staði. Vandamálin í okkar daglega amstri eru oft léttvæg miðað við amstur í stórborgarlífinu, þó það hafi líka sinn sjarma.